19/04/2024

Bent á aukinn áhuga fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Pétur í Ófeigsfirði og ÖssurStjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur nú sent frá sér svohljóðandi ályktun um orkuöryggi á Vestfjörðum: "Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) beinir því til iðnaðarráðherra að hann hraði eftir fremsta megni nútímavæðingu raforkukerfis Vestfirðinga og tekin verði ákvörðun um bestu mögulegu leiðir til uppbyggingar kerfisins. Sérstaklega verði horft til þess möguleika sem stærri vatnsaflsvirkjun á Vestfjörðum getur falið í sér við lausn þessa verkefnis. Koma þar helst til greina virkjanir á vatnasvæði á Ófeigsfjarðarheiði og á Glámuhálendi. Bendir stjórn FV í þessu sambandi á aukinn áhuga fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði."

Í greinargerð þar sem fjallað er ítarlegar um málið segir: 

"Öruggt aðgengi aðraforku er meðal grundvallarforsendna fyrir uppbyggingu nútímasamfélaga. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér  markmið um að samfélög á Íslandi standi jafnfætis í þessum efnum. Ástand raforkukerfisins á Vestfjörðum er hinsvegar þess eðlis að það mun að óbreyttu verða enn frekari dragbítur á samfélagsþróun í fjórðungnum. Margvíslegar betrumbætur hafa verið gerðar á núverandi raforkukerfi, en ljóst er að þær úrbætur nægja ekki til að Vestfirðingar standi jafnfætis öðrum landsmönnum, eins og markmið stjórnvalda segja til um. Ein lausn til frambúðar felst í nýrri aðflutningslínu inn í fjórðunginn og styrkingu núverandi dreifikerfis. Önnur lausn felst í virkjun vatnsafls á Vestfjörðum sem tryggði að lágmarki núverandi orkuþörf ásamt lagningu línu sem  tryggði hringtengingu rafmagns um fjórðunginn.

Virkjunarkostir á Vestfjörðum sem geta mætt framangreindu markmiði eru fáir, ef marka má fyrirliggjandi rannsóknir. Hér verður að horfa til ýmissa þátta s.s. miðlunarmöguleika, forgangsorkuþörf og nýtingartíma á ársgrundvelli. Samkvæmt rannsóknum koma hér helst til greina virkjun/virkjanir á vatnasvæðum á Ófeigsfjarðarheiði og á Glámuhálendi. Tvær virkjanir hafa verið nefndar í þessu samhengi, Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og Hestfjarðarvirkjun. Frumdrög að þessum virkjunarkostum hafa verið kynnt áður, en  hafa síðan legið í láginni þar sem hagkvæmni þeirra var talin minni í samanburði við aðra virkjunarkosti í landinu.

Þróun raforkumála á síðustu misserum gefur tilefni til að skoða þessi verkefni að nýju og fyrir Vestfirðinga er þetta mál brýnt með tilliti til þess sem hér að framan er sagt.  Áhugavert er að nú hafa komið fram einkaaðilar sem hafa kannað á eigin forsendum hagkvæmni á virkjun Hvalár í Ófeigsfirði. Telja þeir að hefja megi framkvæmdir innan tiltölulega skamms tíma ef áætlanir þeirra ganga eftir.

Hér gætu farið saman hagsmunir í atvinnuuppbyggingu til lengri og skemmri tíma litið.Virkjunarframkvæmdir innan fárra ára myndu tryggja fjölda starfa í erfiðu efnahagsástandi til viðbótar því að til framtíðar litið skapar virkjun möguleika á nýrri atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum á grundvelli aukins framboðs á raforku og afhendingaröryggi."