04/10/2024

Ársskýrsla Geislans 2004

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur fengið senda ársskýrslu Ungmennafélagsins Geislans sem starfar í Hólmavíkurhreppi fyrir árið 2004 og er hún birt í heild sinni hér að neðan. Starfsemi félagsins hefur verið mjög kraftmikil síðastliðin ár í yngri flokkunum, skipulagðar æfingar eru í mörgum greinum og farið er í keppnisferðalög og á mót bæði í flokkaíþróttum og einstaklingsíþróttum. Gott samstarf hefur verið við Húnvetninga í þeim efnum. Nú hefur íþróttaaðstaða batnað til mikilla muna á Hólmavík með nýju íþróttahúsi og því væntanlega bjartir tímar framundan hjá Geislanum.


Ársskýrsla Geislans árið 2004 (vor 2005)

Íþróttastarf Geislans var sem endranær mjög kraftmikið í hópi ungmenna. Samkvæmt venju var farið á tvö knattspyrnumót á Ísafirði með alla keppendur Geislans, þ.e. frá 6 ára til 16 ára. Tekið var þátt í Borgarnesmóti í knattspyrnu og voru um 30 keppendur frá Geislanum þar. Bæði þar og á Barna- og unglingalandsmóti UMFÍ var teflt fram liði með UMF Kormáki á Hvammstanga. Á Barna- og unglingalandsmóti voru keppendur Geislans á þriðja tuginn. 

Tekið var þátt í öllum mótum sumarsins á vegum HSS þ.e. í knattspyrnu, frjálsum og sundi og var árangur ágætur.
Bestum árangri á Barna- og unglingalandsmóti í einstaklingsgreinum náði Guðjón Þórólfsson sem sigraði í hástökki og stóð framarlega í öðrum greinum. Ágætur árangur náðist einnig í öðrum greinum.

Í körfuknattleik var haldið áfram hinum ágæta samstarfi við UMF Kormák og tóku  sjö keppendur frá Geislanum á aldrinum 13-16 ára þátt í Íslandsmótinu í körfuknattleik með jafnöldrum sínum frá Hvammstanga. Tveir keppendur munu síðan fara til Danmerkur þann 1.-7. júní í vor til keppni í körfuknattleik, en það eru þau Lára Kristjánsdóttir og Þórhallur Aron Másson.

Þess má geta að krakkarnir sóttu stundum æfingar alla leið að Hvammstanga og samstarfið gekk þannig að þegar hin nýja og glæsilega íþróttamiðstöð var vígð þá mætti stór hópur frá Hvammstanga og færðu okkur í Geislanum góðar gjafir. Ekki er úr vegi að nefna það að einnig tóku þátt í þessu samstarfi systurnar Ellen og Árný Björnsdætur úr Árneshreppnum og kepptu með í körfuknattleiknum og stóðu sig vel.

Að venju sá Geislinn einnig um 17. júní undirbúning fyrir Hólmavíkurhrepp og gekk það vel og fór hátíðin vel fram.

Þjálfarar síðastliðið ár voru þau Bjarni Ómar Haraldsson, Ingibjörg Emilsdóttir, Kristján Sigurðsson, Hrafnhildur Þorsteinsdóttir og Gunnar Bragi Magnússon.  Einnig hafa unglingarnir tekið þátt í þjálfuninni og eru það þau Steinar Ingi Gunnarsson, Jóhannes Alfreðsson, Unnur Eva Óladóttir og Árdís Rut Einarsdóttir sem komið hafa að því. Í sumar mun his vegar Þorvaldur Hermannson sem okkur er að góðu kunnur sjá um alla þjálfun fyrir Geislann.

Aðstaða til íþróttaæfinga hefur eins og alkunna er stórbatnað hér á Hólmavík með nýrri og glæsilegri íþróttamiðstöð og eru hreppsnefnd færðar bestu þakkir fyrir að vera svo stórhuga hvað varðar aðstöðu. Nú hillir að auki undir gervigrasvöll til að nota á sumrin og mun það án efa enn bæta árangur krakkanna.

Geislinn sendi einnig nokkur lið (og einstaklinga) í fullorðinsflokki til þátttöku í mótum HSS.

Stjórnin

ithrottir/2005/580-fotboltamot3.jpg

1