24/06/2024

Hreinsunarátak 28. maí

Nú eru margir Strandamenn í óðaönn að hreinsa til í sínu nánasta umhverfi, taka til eftir veturinn og dytta að ýmsu sem þarf að laga. Starfsmenn Hólmavíkurhrepps eru þar engin undantekning en í morgun var hafist handa við að setja niður gula stálhlera ofan á niðurföll í gangstéttum í Lækjartúni og Víkurtúni. Vitað er til þess að niðurföllin hafa valdið óhöppum þó að enginn hafi slasast illa, þannig að nú geta menn labbað og hjólað nokkuð áhyggjulausir um gangstéttirnar í þessum götum. Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri Hólmavíkurhrepps, sagði einnig í samtali við strandir.saudfjarsetur.is að fyrirhugað væri að halda hreinsunardag á Hólmavík þann 28. maí nk.

Að sögn Ásdísar verður hreinsunarátakið þannig uppbyggt að íbúar einstakra hverfa á Hólmavík hittast um kl. 13:00 og síðan myndu allir taka til á sínu svæði. Um kvöldið yrði síðan slegið saman í grill, gleði og gaman. Ásdís segir að þetta hreinsunarátak sé auðvitað stór liður í því að klæða bæinn í sparifötin fyrir sumarið og fyrirhugaða bæjarhátíð, en átakið sé ekki síður gott tækifæri fyrir fólk til að hrista sig saman og hafa svolítið fjör og skemmtun – gera sér glaðan dag.

Ásdís sagði einnig í samtali við vefinn að á næstu vikum myndu starfsmenn hreppsins setja upp ruslafötur og bekki og borð víðs vegar um bæinn. Það er því alveg ljóst að hinir heiðgulu og sumarlegu niðurfallshlerar í Lækjartúni og Víkurtúni eru bara byrjunin á hreinsunar- og lagfæringarátaki á Hólmavík sem nær hámarki þann 28. maí nk.