01/12/2024

Vinnslu fiskafurða hætt hjá Særoða

Fiskvinnslan Særoði á Hólmavík hefur hætt allri vinnslu sjávarafurða en eigendur fyrirtækisins hafa saltað og pakkað öllum afla sem borist hefur á land af bát fyrirtækisins, Bensa Egils. Að sögn Sævars Benediktssonar annars eiganda Fiskvinnslunnar Særoða stendur of sterk staða krónunnar vinnslunni fyrir þrifum og hann segir útilokað að hægt sé að vinna aflann lengur án þess að þurfa að borga með vinnslunni. Bensi Egils mun framvegis leggja aflann upp á Fiskmarkaði Hólmavíkur, sem verður síðan fluttur til annarra staða á landinu til vinnslu. Á síðasta ári fóru um 70 tonn í gegnum vinnslu Særoða.