27/04/2024

Selskersviti lýsir á ný

Áhafnir varðskipa landhelgis-gæslunnar sinna margvíslegum verkefnum og þar á meðal viðhaldi vita fyrir Siglingastofnun. Fyrir skömmu unnu skipverjar á varðskipinu Týr að viðhaldi í vitanum á Selskeri á Húnaflóa sem er djúpt út af Ingólfsfirði. Selskersviti var hættur að lýsa og við athugun varðskipsmanna kom í ljós að ljósnemi í vitanum var bilaður en hann er nú farinn að lýsa sjófarendum á ný. Vitahúsið sem var byggt árið 1947 er ríflega 18 metra hátt og vitaljósið sjálft er í 23 metra hæð yfir sjávarmáli.

Því má bæta við til fróðleiks að deildar meiningar hafa verið um langa tíð um raunverulegt heiti skersins, en margir vilja meina að heitið Selsker sé rugl úr dönskum kortum og að það heiti sannanlega Sælusker.


Selsker – Sælusker
Ljósm.: Landhelgisgæslan