Categories
Frétt

Vinahlaup um Arnkötludal

300-arnkatla-hlaup2Dagskrá Stefnumóts á Ströndum, atvinnu- og menningarsýningar á Hólmavík, hófst í gærmorgun með því að félagar í Héraðssambandi Strandamanna hlupu um nýjan veg um Arnkötludal til móts við félaga sína úr Reykhólasveit í Ungmennafélaginu Aftureldingu. Um það bil 30 hlauparar á öllum aldri, vanir og óvanir, tóku þátt í hlaupinu fyrir hönd Strandamanna og hlupu sex alla leiðina frá vegamótum við Hrófá þar til hóparnir mættust. Aðrir gátu fengið far með kindavagni hluta leiðarinnar en hlupu inn á milli. Ágúst G. Atlason sem var sérlegur ljósmyndari Stefnumótsins tók meðfylgjandi myndir af hlaupinu og vinafundi á fjöllum uppi.

Miðja vegu, á svokölluðum Þröskuldum, mættust hóparnir og skiptust fánaprýddar fylkingar á vinakveðjum sem síðan voru lesnar upp á hátíðahöldunum sitt hvoru megin við heiðina, Stefnumóti á Ströndum og Reykhóladeginum. Auk þess færðu Reykhólasveitungar Strandamönnum stein úr sinni heimasveit til að setja í vörðu til framtíðar sem reist er við félagsheimilið á Hólmavík í dag.

Verktakinn við vegagerðina, Ingileifur Jónsson og Guðrún kona hans, tóku sérlega vel á móti hópunum og buðu öllum skaranum í kaffi í vinnubúðum verktakanna og gáfu hlaupurunum endurskinsvesti til að klæðast þegar hlaupið er á vegum úti. Þegar nýr vegur um Arnkötludal opnar síðar í haust aukast tækifæri milli Reykhólasveitar og Strandamanna á margvíslegri samvinnu og samskiptum verulega.

580-arnkatla-hlaup3 580-arnkatla-hlaup1 580-arnkatla-hlaup2 400-arnkatla-hlaup1 400-arnkatla-hlaup2

Hlaupið um Arnkötludal – ljósm. Ágúst G. Atlason