29/05/2024

Veglínan í Gautsdal færð um allt að 250 metra

Í fréttum Svæðisútvarps Vestfjarða var fjallað um veglagningu um Gautsdal sem er hluti af nýja veginum um Arnkötludal. Þar kom fram að Karl Kristjánsson, hreppsnefndarmaður í Reykhólahreppi, segir að Vegagerðin hafi ekki farið að lögum um mat á umhverfisáhrifum við veglagninguna. Ákveðin veglína hafi farið í umhverfismat, en síðan hafi veglínunni verið breytt um allt að 250 metra, án þess að tilkynnt væri um breytingarnar til Skipulagsstofnunar. Þetta hafi ekki heldur verið tekið sérstaklega fram þegar sótt var um framkvæmdaleyfi hjá Reykhólahreppi.

 

Í frétt Svæðisútvarpsins á vefnum ruv.is segir:

Reykhólahreppur sendi Skipulagsstofnun erindi þar sem óskað var eftir áliti stofnunarinnar á því hvort framkvæmdir við Arnkötludalsveg væri í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Segir í svari Skipulagsstofnunar að Vegagerðinni hafi átt að vera ljóst að henni bæri að tilkynna þessar breytingar til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun telji gagnrýnivert að í umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi við Arnkötludalsveg í Gautsdal hafi ekki verið sérstaklega skýrt frá breytingum á veglínum, þegar sótt var um framkvæmdaleyfi til Reykhólahrepps. Stofnunin gerir jafnframt athugasemd við gæði uppdráttar af fyrirhugaðri veglínu sem fylgdi umsókninni.

Fram kemur að á einum kafla víki veglínan í tvígang um allt að 250 metra og víða á bilinu 50-200 metra. Meðal annars færist veglínan allt að 100 metra nær Fossi, en það svæði hafi verið talið viðkvæmt meðal annars vegna hugsanlegs búsvæðis gulandar sem er á válista. Karl segir að það hljóti að hafa áhrif á aðrar framkvæmdir vegagerðarinnar í Reykhólahreppi, ef ekki ríki traust á milli sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar. Búið sé að leggja veginn eftir nýju veglínunni en einhverjar lagfæringar hafi verið gerðar til að reyna að minnka skaðann.