27/02/2024

Vegaframkvæmdir í botni Steingrímsfjarðar kynntar

Vegagerðin hefur með frétt á heimasíðu sinni kynnt 2,8 km langa vegaframkvæmd á Strandavegi (643), frá Djúpvegi í botni Steingrímsfjarðar að afleggjara að Geirmundarstöðum. Einnig verða lagðir vegir sem tengja bæina Stað, Stakkanes og Grænanes við nýja veginn og eru heildarvegalagnir tæpir 4 km og liggja nýjar veglínur að mestu fjarri núverandi vegum. Fram kemur að kynningin er gerð til að fá úrskurð Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum, en Vegagerðin telur að framkvæmdin muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif. 


Nýr kafli Strandavegar verður 8,0 m breiður, en aðrir vegir verða 4,0 m breiðir. Framkvæmdin er lokaáfanginn við að leggja bundið slitlag á leiðina milli Hólmavíkur og Drangsness. Stefnt er að því að framkvæmdir við verkið hefjist 2011 og að verklok verði 2012.

Hér má nálgast skýrslu um vegagerðina og kort af framkvæmdasvæðinu.

Þessi vegagerð er sú eina á Ströndum sem er inni á Samgönguáætlun 2009-2012, en ýmsum framkvæmdum sem fyrirhugaðar voru á síðustu árum hefur verið slegið á frest, svo sem framkvæmdum í Bjarnarfirði, á Bjarnarfjarðarhálsi og Veiðileysuhálsi og kaflinn milli Þorpa og Heydalsár í Steingrímsfirði.