10/05/2024

Ár síðan vegurinn um Arnkötludal var opnaður

580-arnkatla-hlaup2

Í dag er ár síðan vegurinn um Arnkötludal var opnaður formlega, en vegurinn hefur reynst mikil samgöngubót og haft jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og atvinnulíf á Ströndum. Til að mynda hefur notkun hafnarinnar á Hólmavík aukist með tilkomu vegarins, þar sem m.a. er landað þar áburði og honum síðan ekið í Dali og Reykhólasveit. Talning á umferð á veginum varð nýlega aðgengileg á vef Vegagerðarinnar og textavarpi RÚV, en upplýsingum frá veðurstöð hefur verið miðlað frá upphafi. Nú er vefmyndavél einnig komin í gagnið og aðgengileg hér.

Í sumar hefur verið unnið að lagfæringum á umhverfi vegarins, auk þess sem seinni umferð bundins slitlags var lögð á veginn. Þá var nú í haust lokið við að mála leiðbeinandi miðlínu á veginn.

Athygli vekur að við merkingar á veginum hefur verið máluð brotalína á veginn framhjá vegamótunum við veginn norður Strandir við Hrófá. Ekki er annað að sjá í fljótu bragði en að þessi miðlínumerking Vegagerðinnar séu óvarleg og geti jafnvel leitt til áreksturs, fremur en að koma í veg fyrir hann eins og slíkar merkingar hljóta að eiga að gera. Taka má dæmi um bílstjóra sem kemur norður Strandir og beygir til hægri til Hólmavíkur eftir að hafa gáð vel og vandlega hvort bíll sé að koma frá vinstri. Hann gæti þá átt það á hættu að á sama tíma og hann beygir inn á veginn til hægri að mæta bílum á báðum akreinum, ef að bíll sem kemur frá Hólmavík reynir á sama tíma framúrakstur eins og merkingar gefa til kynna að sé óhætt.