22/12/2024

Veðrið í Árneshreppi í desember 2007

Ljósm. Jón G.G.Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hefur fengið yfirlit yfir veðrið í desember 2007 frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík. Desember var umhleypingasamur mánuður og úrkomusamur og oft hvassviðri eða stormur. Vindhraði náði 12 vindstigum eða 36 m/s í kviðum að morgni 13. desember. Talsvert tjón varð þá að Melum I þegar meirihluti af fjárhúsþaki öðru megin fauk, en skepnur sköðuðust ekki. Einnig fuku hurðir af hlöðu á bænum Bæ í Trékyllisvík, þá fuku ruslagámar og eitthvað annað lauslegt.

Samantekt um veðrið einstaka daga desembermánaðar:

1.-3.: Norðan stinningkaldi, hvassviðri þann 2. og kaldi í fyrstu þann 3. en norðanáttin gekk síðan niður, él og síðan slydda, en þurrt um daginn þann 3., hiti frá 2 stigum niðrí 3 stiga frost.
4.-10.: Austlæg vindátt, yfirleitt kul eða gola, en stinníngskaldi þann 5., snjókoma, rigning eða él, þurrt í veðri dagana 7.-8. og 10., hiti frá 4 stigum niðrí 6 stiga frost.
11.-12.: Sunnan síðan suðaustan, stinningsgola, rigning, hiti 2 til 6 stig.
13.: Suðaustan, sunnan og suðsuðvestan, rok snemma morguns,en fárviðri í kviðum. Veður gekk niður um hádegi, smá rigning, síðan smá snjóél. Hiti 2 til 8 stig.
14.: Suðaustan og sunnan kaldi í fyrstu síðan stormur, kviður í ofsaveður og þetta veður stóð framundir miðnætti. Rigning, síðan skúrir, hiti 4 til 10 stig.
15.-16.: Suðsuðvestan og sunnan, stinningskaldi síðan stinningsgola, skúrir, él, rigning, hiti 1 til 7 stig.
17.-22.: Suðlægar vindáttir, stormur um tíma um kvöldið þann 17. síðan allhvass þann 18., og einnig allhvass þann 22., annars mest kaldi. Rigning, slydda, skúrir eða él. Hiti frá 2 stigum upp í 10 stig.
23.: Norðvestan stinningsgola eða kaldi, snjóél eða snjókoma, frost 1 til 4 stig.
24.-25.: Sunnan stinníngsgola eða kaldi, snérist í allhvassa norðaustan um kvöldið þann 25. frost frá 6 stigum upp í 3 stiga hita.
26.-27.: Norðan og norðvestan allhvasst eða hvassviðri, snjókoma síðan él, frost 1 til 6 stig.
28.: Norðaustan stinningsgola, smá él, frost 3 til 7 stig.
29.: Austan kul eða gola, þurrt í veðri, frost 1 til 5 stig.
30.-31.: Suðlægur allhvasst eða hvassviðri, rigning síðan él, hiti 1 til 8 stig.

Úrkoman mældist 116 mm.
Úrkomulausir dagar voru 4.
Mestur hiti var 12,2 stig þann 18.
Mest frost var 6,9 stig þann 28.
Jörð var talin alhvít í 10 daga.
Jörð var talin flekkótt í 10 daga.
Auð jörð því í 11 daga.
Mesta snjódýpt mældist 11 cm dagana 28. og 29.
Sjóveður var mjög risjótt í mánuðinum.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík sem jafnframt tók meðfylgjandi mynd af Reykjaneshyrnu þann 8. desember síðastliðinn.