28/05/2024

Stemmning í Bragganum

Heiða Í gærkvöldi kom fjöldi Strandamanna saman í Bragganum á Hólmavík, í því skyni að fylgjast með Idol stjörnuleit á risatjaldi og senda um leið jákvæða strauma til Heiðu sem nú heyir harða úrslitabaráttu í keppninni. Spennan var mikil þar sem gestir sátu við kertaljós og klöppuðu óspart fyrir Heiðu.

Í hléi var gerð könnun á því hverjir menn héldu að væru í fallbaráttunni og hver myndi detta út. Voru niðurstöður nokkuð samhljóða áliti dómara og almennings í símakosningu.

Spennan magnaðist svo enn frekar þegar í ljós kom að Heiða var kölluð upp og reyndist meðal tveggja neðstu. Það var hins vegar Ylfa Lind sem datt út og ætlaði þakið að rifna af Bragganum þegar það var tilkynnt. Skömmu síðar barst SMS frá Heiðu þar sem hún þakkaði viðstöddum stuðninginn.

Kvöldið endaði svo á því að Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir, sem í fyrradag tryggði sér sæti í úrslitum söngvakeppni Samfés, dró í happdrætti og var það Tinna Rut Björnsdóttir sem vann sér inn pizzu á næsta Idolkvöldi. Að sögn Sigurðar Marinós Þorvaldssonar sem skipulagði Idolkvöldið er ekki spurning að þessi kvöld eru komin til að vera og vonast hann til að sjá miklu fleiri gesti næst.