29/05/2024

Varað við krappri haustlægð

Veðurstofa Íslands hefur gefið út viðvörun vegna storms sem gengur yfir landið vestanvert í nótt og fyrramálið. Slysavarnafélagið Landsbjörg vill vegna þessa brýna fyrir fólki að gera ráðstafanir svo hægt sé að koma í veg fyrir tjón og óþægindi er vilja fylgja slíku veðri. Búist er við ört vaxandi austanátt með rigningu í kvöld, fyrst sunnan til. Austan og norðaustan 15-25 og rigning í nótt, hvassast vestan til. Er fólk sérstaklega hvatt til að huga að lausamunum í garði og á svölum, svo sem garðhúsgögnum, grillum, hiturum og trampólínum sem fokið geta á hús og bíla og valdið tjóni. Einnig að athuga að þakplötur séu tryggilega festar, einnig þakrennur, grindverk og annað, auk þess sem hjólhýsi, fellihýsi, tjaldvagnar og dráttarkerrur eru best geymdar í skjóli við ríkjandi vindátt og kyrfilega frá þeim gengið.