28/04/2024

Samfylkingin beygir Sjálfstæðisflokkinn í landbúnaðarmálum

Grein eftir Jón Bjarnason og Atla Gíslason.
Matvælafrumvarp ríkisstjórnarinnar, þar sem innflutningur á hráu kjöti er heimilaður, hefur mætt harðri andstöðu þeirra er málið varðar. Enginn vafi er á því að samstaða og samtakamáttur Bændasamtakanna, íslenskra matvælaframleiðenda og neytenda, sérfræðinga í matvælaheilbrigði og fjölmargra sveitarfélaga á landsbyggðinni hefur skipt sköpum um að á vordögum sló Alþingi málinu á frest. Þessi frestun málsins var einnig í samræmi við tillögur Vinstri grænna sem kynntar voru í fundaröð flokksins um frumvarpið þann 13.-14. maí sl., en flokkurinn hefur beitt sér af alefli í málinu. Með frestun frumvarpsins fram á haust fylgdu loforð meirihlutans um að ítarlega yrði að málinu unnið yfir sumarmánuðina og tíminn nýttur til gagns.

Árangur á heimsmælikvarða

Hin breiða samstaða ólíkra hópa sem eindregið vara við frumvarpinu ætti ekki að koma á óvart. Frumvarpið stefnir matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu. Með hækkandi heimsmarkaðsverði á matvælum verður æ ljósar hversu mikilvægt er að ríki geti framleitt sína eigin matvöru en ekki verið um of háð öðrum um þá framleiðslu. Sumar þjóðir hafa gengið svo langt að setja útflutningstolla á ýmis matvæli til að markmiðum um fæðuöryggi séu tryggð.

Einnig er vert að benda á að á Íslandi hafa matvælaframleiðendur náð einstökum árangri á sviði matvælaöryggis. Hér hefur tekist að halda salmonellu- og kamfýlóbakteríusmitum í lágmarki og mun lægri en í löndum ESB. Þessum árangri höfum við náð með þrotlausri vinnu og fjárfestingum undanfarin ár og byggt er á eftirlitskerfum og heilbrigðisstöðlum, sem eru með því allra besta sem þekkist í heiminum. Þvílíkur árangur á sviði matvælaöryggis er ekki auðfenginn og er ábyrgðarlaust að vanmeta hversu auðveldlega má glutra honum niður.

Sjálfstæðisflokkurinn bognar

Það er síðan sjálfstætt rannsóknarefni af hverju Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur landbúnaðarmálin á sínu forræði, hefur lagt áherslu á að samþykkja frumvarpið. Til þessa hefur flokkurinn lagt ofuráherslu á að vera hliðhollur íslensku atvinnulífi en verði frumvarpið að lögum er ljóst að einni mannaflsfrekustu atvinnugrein landsins, matvælaframleiðslu, er stefnt í voða. Þessi afstöðubreyting Sjálfstæðisflokksins verður enn óskiljanlegri í ljósi þess að við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagsmálum þjóðarinnar er kallað eftir mannaflsfrekum framkvæmdum.

Kannski er skýringanna að leita í því að Sjálfstæðisflokkurinn lætur Samfylkinguna teyma sig í þessu máli. Samfylkingin hefur þá afdráttarlausu skoðun að heimila skuli óheftan innflutning á hráum matvælum til landsins eins og frumvarpið felur í sér að gert verði. Eins og allir þekkja fékk Samfylkingin landbúnaðarstefnu sína í arf frá Alþýðuflokknum gamla, sem var hvorki hliðholl íslenskum landbúnaði né fullvinnslu matvæla hér á landi.

VG stendur vaktina

Gera má ráð fyrir því þegar þing kemur saman aftur í byrjun september að áfram verði rætt um matvælafrumvarpið. Það hefur reyndar sætt furðu að í sumar hefur ekki einu sinni verið fundað í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd til að fara yfir þær fjölmörgu ósvöruðu spurningar sem uppi eru í málinu. Raunar hefur umfjöllun nefndarinnar verið svo vanreifuð að enn hafa nefndarmenn ekki fengið gögn er skýra af hverju íslensk stjórnvöld féllu frá undanþágu á innflutningi á hráu kjöti í viðræðum sínum við Evrópusambandið.

Þetta pukur á sér stað þrátt fyrir fjölmargar ítrekanir og bréfaskriftir til formanns nefndarinnar, viðkomandi ráðherra og ráðuneytisstjóra og forseta þingsins um að nefndarmenn fái gögn málsins tafarlaust. Hvað veldur því að brotið er á sjálfsögðum rétti þingmanna til að fá upplýsingar um mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi?

Vel má vera að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki tilbúinn að verja íslenskan landbúnað lengur og hafi ákveðið að leyfa gamalli landbúnaðarstefnu Alþýðuflokksins að ráða för í þessu máli. Það er hins vegar ljóst að Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun ekki gefa eftir þumlung í málinu og berjast af alefli fyrir því að matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar verði áfram tryggt. Krafa okkar og þeirra er bera hag landbúnaðarins fyrir brjósti er að frumvarpinu verði hafnað og samningaviðræður við Evrópusambandið teknar upp að nýju.

Atli Gíslason þingmaður VG í Suðurkjördæmi
Jón Bjarnason þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi