22/12/2024

Úrslit og myndir frá hrútadómunum

Meistaramót í hrútadómum fór fram á Sauðfjársetrinu í Sævangi á sunnudag og var mikið um dýrðir. Veðrið hélst þokkalegt á meðan mótið fór fram, en keppnin fór fram í skjóli við húsvegginn í Sævangi. Fjöldi keppenda sem margir voru langt að komnir mættu til leiks og hefur þátttaka sjaldan verið betri í flokki þeirra sem eru vanir hrútadómum. Það var Strandamaðurinn Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi sem bar sigur úr býtum á mótinu eftir harða keppni, því alls voru sex sem fundu út réttu röðina á hrútunum miðað við mat yfirdómnefndar undir stjórn Jóns Viðars Jónmundssonar.

Í öðru sæti í flokki þeirra sem gáfu hrútunum stig og eru vanir hrútaþuklarar varð annar Strandamaður, Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum í Tungusveit, en þriðji varð Úlfar Sveinsson úr Skagafirði.

Í flokki þeirra óvönu sigraði Sigurður Sigurðarson dýralæknir sem hafði röðina rétta og óvenju snjallan rökstuðning. Dómnefnd taldi að vísu álitamál hvort Sigurður hefði keppt í réttum flokki, en hann fullyrti að hann kynni ekkert í stigakerfinu og væri alsendis óvanur að þukla lifandi hrúta, þó hann hefði vissulega skoðað innyflin í allmörgum slíkum. Sigurður brá síðan á leik og flutti vísur sem hann hafði ort á meðan á skemmtuninni stóð við verðlaunaafhendinguna, en hann var á ferð með Kvæðamannafélaginu Iðunni á Ströndum í tengslum við Landsmót hagyrðinga. Í öðru sæti í flokki þeirra óvönu varð Alda Ýr Ingadóttir á Kaldrananesi á Ströndum sem er 11 ára og sú þriðja varð Sólrún Ósk Pálsdóttir sem er 6 ára.

Myndir sem fylgja þessari frétt tók Kristín S. Einarsdóttir.

640-hrutadomar8 640-hrutadomar7 640-hrutadomar6 640-hrutadomar4 640-hrutadomar3 640-hrutadomar2 640-hrutadomar1

320-hrutadomar7 320-hrutadomar6 320-hrutadomar5 320-hrutadomar4 320-hrutadomar3 320-hrutadomar2 320-hrutadomar1

 Ljósm. Kristín S. Einarsdóttir