26/04/2024

Fjölmenni á Landsmóti hagyrðinga

Fjölmenni var á Landsmóti hagyrðinga á Hólmavík á laugardag og tókst mannfagnaðurinn með miklum ágætum. Öll gisting á Hólmavík og í næsta nágrenni var upppöntuð vegna mótsins, húsbílar voru ófáir og fjöldi aðkomumanna gisti einnig hjá vinum og kunningjum á Hólmavík. Bergur Torfason frá Felli var veislustjóri á mótinu, en Bjarni E. Guðleifsson heiðursgestur og eiga báðir þakkir skyldar fyrir glæsilega framgöngu. Kristján Stefánsson frá Gilhaga spilaði á harmonikku fyrir gesti ásamt fleirum eftir að dagskrá lauk.

Sauðfjársetur á Ströndum sá um veisluföngin og framkvæmd mótsins í samvinnu við Landsnefnd hagyrðingamóta. Ef einhverjir hafa tekið vídeómynd á mótinu vill Landsnefndin gjarnan frétta af því, þar sem hljóðupptaka tókst ekki eins og best verður á kosið á hluta mótsins. Einnig væri gaman að fá myndir frá Landsmótinu sendar til Sauðfjársetursins saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is eða Sauðfjársetur, Kirkjubóli, 510 Hólmavík.

Stofnaður hefur verið spjallþráður á spjallinu hér á strandir.saudfjarsetur.is þar sem ætlunin er að safna saman vísum frá mótinu og í tengslum við það.

Hagyrðingamótið á Hólmavík, úr salnum og Bergur veislustjóri – ljósm. Jón Jónsson