19/04/2024

Úrskurður um umhverfisáhrif kærður

Leið ehf. í Bolungarvík kærði í fyrri mánuði ákvörðun Skipulagsstofnunar frá því í apríl síðastliðnum þess efnis að framkvæmdir við hringveginn milli Brúar og Staðarskála í Hrútafirði skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Bendir Leið ehf. í kæru sinni á mögulega þverun Hrútafjarðar mun norðar eða frá Reykjatanga og yfir fjörðinn að Kjörseyri. Frá þessu segir nánar á vef Leiðar – www.leid.is – en upplýsingar hér fyrir neðan eru teknar þaðan.

Kæran snýr að tillögu Vegagerðarinnar um endurgerð þjóðvegar 1, hringvegarins, á 7,6 km kafla í botni Hrútafjarðar. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er framkvæmdinni lýst þannig:

Fyrirhuguð framkvæmd. Vegagerðin fyrirhugar að endurgera Hringveg í Hrútafirði, á 7,6 km kafla sem hefst um 0,9 km sunnan við Brú, þverar Hrútafjörðinn á nýjum stað og endar 1 km norðan Staðarskála í landi Staðar. Framkvæmdin felst einnig í gerð þriggja nýrra vegtenginga; að Brú, að Djúpvegi og að núverandi Hringvegi við Staðarskála. Um 3,1 km framkvæmdarinnar fylgja núverandi vegi en um 4,5 km teljast nýlagning. Í tengslum við framkvæmdina verður byggð ný tvíbreið brú yfir Hrútafjarðará og einbreið brú yfir Selá á Djúpvegi verður breikkuð. Áætluð efnisþörf í verkið er 129 þús m3 og verður efni tekið úr vegskeringum og námum við Bláhæð, Brú, Mela, Selá, Kvígugil og Brandagil. Efni hefur verið tekið úr öllum námunum áður.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta vegasamband á Hringvegi og stytta leiðina um Hrútafjarðarbotn. Markmiðið er að auka umferðaröryggi og tryggja greiðari samgöngur á Norðurlandi vestra. Vegurinn verður með bundnu slitlagi og hannaður fyrir 90 km/klst hámarkshraða.

Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi óveruleg umhverfisáhrif nema hvað varðar betri samgöngur og bætt umferðaröryggi vegfarenda. Framkvæmdin er á vegáætlun 2005-2008. Áætlað er að framkvæmdir hefjist árið 2006. Áætluð verklok eru haustið 2007."

Að mati Leiðar ehf. er vissulega þörf á úrbótum á hringveginum á þessum slóðum, en rétt þótti að fara fram á að fjallað yrði um möguleika á annarri legu vegarins en fram kom í tillögu Vegagerðarinnar. Er þar um að ræða þverun Hrútafjarðar mun norðar eða á móts við Reyki þar sem Reykjaskóli er og yfir að Kjörseyri á Ströndum, sem stytti leiðina fyrir fjörðinn milli Vestfjarða og Norðurlands vestra um ca. 30 km. í stað 7 km.

Á þessum stað er fjörðurinn aðeins um 1.300 metra breiður og tiltölulega grunnur. Lét Leið ehf. fylgja erindinu dýptarmælingar sem unnar voru fyrir félagið á þessum stað í firðinum þar sem sjá má að langt rif gengur út í fjörðinn Reykjamegin en dýpi þar er aðeins um 5 metrar en fremur grunnt er yfir allan fjörðinn á þessum stað eða mest um 25 metrar. Einnig má benda á að sjávarfalla gætir ekki mikið á þessum slóðum miðað við það sem gerist víða þar sem firðir hafa verið þveraðir á vestanverðu landinu.

Gera má ráð fyrir nokkru meiri kostnaði við lagningu vegar þessa leið heldur en við gerð vegar fyrir botni fjarðarins, þótt ekki hafi verið birtar tölur um áætlaðan kostnað við tillögur Vegagerðarinnar. Ný en gróf kostnaðaráætlun sem verkfræðistofan Línuhönnun hf. vann fyrir Leið ehf. gerir ráð fyrir kostnaði að fjárhæð allt að 1.300 m.kr. við þverunina eina og sér og um tífalt meira efnismagn.

Hugsanlegur ávinningur af þverun fjarðarins á þessum stað umfram þverun innar í firðinum telst einkum þrenns konar að mati Leiðar ehf.

"1) Stytting leiða

Í greinargerð Vegagerðarinnar, sem vísað er til í ákvörðun Skipulagsstofnunar, segir að vegurinn fyrir fjörðinn styttist um tæpa 7,2 km. Með þverun milli Kjörseyrar og Reykjaskóla styttist vegurinn um fjörðinn hins vegar um u.þ.b. 30 km eða rúmlega 20 km meira en við þá framkvæmd sem nú er fyrirhuguð. Verði farið að áformum Vegagerðarinnar þýðir það að leiðin milli Stranda og Norðurlands verður um 23 km lengri en hún gæti orðið. Sama á við um leiðina um Laxárdalsheiði til Norðurlands sem sömuleiðis verður um 20 km styttri en hún verður miðað við áform Vegagerðarinnar.

Þá styttist leiðin milli þéttbýlisstaðanna í Dalabyggð og Húnaþingi vestra (Búðardalur – Hvammstangi) úr 91 km niður í um 70 km og milli stærstu þéttbýlisstaðanna í Strandabyggð og Húnaþingi vestra (Hólmavík – Hvammstangi) úr 154 km í rúmlega 130 km.

Í stærra samhengi má einnig benda á að leiðin milli annars vegar Vestfjarða og norðanverðs Vesturlands (Dalir – Snæfellsnes með alls um 12.248 íbúa – 1. desember 2004) og hins vegar Norðurlands styttist um rúma 20 km ef farið er um Laxárdalsheiði. Líklega hefur hvergi náðst jafnmilkil stytting við þverun fjarðar á Íslandi ef frá eru talin göngin undir Hvalfjörð.

2) Samfélagsleg áhrif

Styttri leiðir hafa að jafnaði jákvæð áhrif á það samfélag þar sem þeirra nýtur við. Með þverun Hrútafjarðar við Reykjaskóla skapst mjög góð tenging milli Bæjarhrepps og Húnaþings vestra. Borðeyri kæmist í þjóðbraut þótt líklegt megi teljast að verulega drægi úr umferð við hinn kunna áningarstað Staðarskála. Verða að teljast miklar líkur á að sveitarfélögin Bæjarhrepppur og Húnaþing vestra sameinuðust í eitt sveitarfélag auk þess sem gera mætti ráð fyrir aukinni samvinnu sveitarfélaganna Dalabyggðar, Strandabyggðar og Húnaþings vestra.

Flestum sem til þekkja má vera kunnugt hvað byggð í gömlu kjördæmunum á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra hefur átt á brattann að sækja síðustu ár. Allflestar vegstyttingar stuðla að aukinni samvinnu og samskiptum frá því sem ella væri og þar með betri búsetuskilyrðum. Hér má nefna að í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006 til 2009 sem Alþingi samþykkti á dögunum segir:

 ,,Samgöngur geta ráðið miklu um þróun byggðar. Gæði þeirra hafa afgerandi áhrif á stærð atvinnu-, verslunar- og þjónustusvæða. Þannig hafa bættar samgöngur þegar stuðlað að stækkun markaðssvæða og breytt um leið samkeppnis- og búsetuskilyrðum. Bættar samgöngur eru mikilvæg forsenda fyrir styrkingu landshlutakjarna og leggja grunninn að farsælli sameiningu sveitarfélaga.” Eftir því sem næst verður komist hefur ekki verið ýkja mikil umferð milli Dalabyggðar og Vestfjarða annars vegar og Norðurlands vestra hins vegar og svonefnd þjónustusókn milli landshlutanna ekki mikil en með bættum vegtengingum ættu að skapast mun betri forsendur fyrir slíkum samskiptum.

3) Holtavörðuheiði / láglendisvegir

Með þverun Hrútafjarðar á móts við Reyki ætti að verða auðveldara að komast hjá ferðum um Holtavörðuheiði við slæm akstursskilyrði. Það er vaxandi krafa að umferð um landið sé sem greiðust ekki síst eftir að strandflutnigar lögðust af og að vegir séu opnir því sem næst alla daga árið um kring. Einn mesti farartálmi á leiðinni milli Suðvesturlands og Norðurlands vestra er Holtavörðuheiði. Holtavörðuheiði er bæði allhá, 407 metrar, og stórir hlutar hennar liggja í yfir 200 metra hæð.
Með því að þvera Hrútafjörð norðan vegarins um Laxárdalsheiði, sem hæst fer í 200 metra hæð og getur því vart talist heiði í hefðbundnum skilningi þess orðs, mætti auðvelda umferðinni mjög að fara milli landshlutanna á láglendi eða því sem næst. Lengstum hefur verið ekið um Mýrar, Heydal og Laxárdalsheiði þegar vetrarfærð tálmar akstri um Holtavörðuheiði. Þessi leið er þó mun lengri en um Holtavörðuheiði eða um 70 km. Eftir að vegurinn um Bröttubrekku var lagaður má gera ráð fyrir að hann gæti eitthvað nýst. Þótt Brattabrekka sé svo gott sem jafnhá Holtavörðuheiði er sá hluti hennar sem liggur ofar 200 metrum að miklum mun styttri. Með þverun Hrútafjarðar við Reykjaskóla yrði leiðin um Bröttubrekku um eða innan við 15 km lengri en um Holtavörðuheiði en verður ella um 35 km lengri.
Til framtíðar litið má gera ráð fyrir að vegurinn um Laxárdalsheiði verði byggður upp og einnig að gerð verði göng til að komast megi hjá akstri um efsta hluta Bröttubrökku, en ekki þarf nema um 1,8 km löng með munna í Bjarnardal og Suðurárdal sem að vísu yrðu í um 280 m.h.y.s. en ykju engu að síður mjög öryggi vetrarumferðar. Væri þá kominn láglendisvegur langmestan hluta leiðarinnar milli Suðvesturlands og Norðurlands vestra allt að Vatnsskarði eða Þverárfjalli vestan Sauðárkróks, en vegur þar fer hæst í 322 m.y.s.
Það má einnig nefna hér að með tilkomu Héðinsfjarðargagna má aka milli Akureyrar og Reykjavíkur án þess að fara yfir hærri fjallveg en Þverárfjall. Þá lægi leiðin norður Eyjafjörð til Ólafsfjarðar og þaðan áfram um Héðinsfjarðargöng til Siglufjarðar, þaðan yfir Þverárfjall, yfir Laxárdalsheiði og suður Heydal og síðar væntanlega undir Bröttubrekku. Þessi leið um Bröttubrekku yrði 480 km ef Hrútafjöðrur yrði þveraður við Reyki og komist yrði um Bröttubrekku í jarðgöngum, en ella um 500 km.”