14/11/2024

Ungarnir komnir hjá teistunni

Á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð er töluvert teistuvarp, sérstaklega í Langatanga þar sem áningarstaður Vegagerðarinnar er. Þar er líklega eitt stærsta og þéttasta teistuvarp á Ströndum. Sérkennileg hljóð teistunnar vekja jafnan mikla athygli og hún er fallegur fugl. Ungarnir eru nú komnir hjá flestum teistunum, en enn eru þó egg hjá einstaka fuglum. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is var á rölti í fjörunni í gær og smellti af myndum.

Teistan er einn af einkennisfuglum fjörunnar á Kirkjubóli, en hún verpir í klettaveggjum, rekaviðardrumbahrúgum og stórgrýti. Síðustu árin hafa líka allmargar teistur verpt í þar til gerða varpkassa á Kirkjubóli, en þar er á ferðinni tilraun fuglafræðinga sem fylgjast með varpinu og eru að rannsaka atferli teistunnar og annarra fugla. Hægt er að kíkja í kassana og skoða eggin og ungana.

Teistan er svartfugl, en stofninn er mun minni en annarra svartfugla. Það er auðvelt að þekkja teistuna af hvítum skellum á vængjum og eldrauðm fótum. Vetrarbúningurinn er hvítur og ljósgrár. Nafnið teista er dregið af tísti fuglsins sem er mjög sérkennilegt og líkist helst hátíðnihljóðum. Teistan er ófélagslynd miðað við aðra svartfugla og varpið er mun dreifðara.

Seint í febrúar koma teisturnar upp að landinu og fara um með miklu tísti. Þær velja sér maka og hreiðurstað fyrir lífstíð. Í maí verpir teistan tveimur eggjum og hjónin skipta með sér verkum við útungunina sem tekur 3-6 vikur. Teisturnar ala unga sína á sprettfiski, sem stundum er nefndur teistufiskur, þar til þeir fara úr hreiðri. Þegar ungarnir eru komnir á legg má sjá þá um miðjar nætur að æfa vængjatök. Stór hluti ungfuglanna fer til Grænlands um haustið, en eldri fuglarnir halda sig við Ísland. Minkur og köttur eru verstu óvinir teistunnar. Víða hefur farið illa fyrir teistuvarpi vegna ágengni þeirra.

Háttalag teistunnar er í mörgu frábrugðið öðrum fuglum. Þar á meðal er hægt að nefna hinn svokallaða trönudans. Þá dansar teistan í gleði sinni á sjó eða landi. Þessir dansleikir eru skemmtilegir á að horfa og svo vinsælir að aðrar teistur fljúga langar leiðir til að vera með. Hvað dansinn merkir veit enginn nema teisturnar sjálfar.

1

bottom

natturumyndir/580-teistan8.jpg

natturumyndir/580-teistan10.jpg

natturumyndir/580-teistan3.jpg

natturumyndir/580-teistan11.jpg

natturumyndir/580-teistan1.jpg

natturumyndir/580-teistan6.jpg

Í teistubyggðinni á Langatanga við Kirkjuból – ljósm. Jón Jónsson