26/04/2024

Gamlar mannanafnagátur

Í grúski sínu um daginn rakst ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is á gamlar mannanafnagátur sem hann hafði skrifað niður fyrir allmörgum árum. Það er þekkt vandamál að margir og þá sérstaklega Strandamenn vita ekkert hvað þeir eiga af sér að gera þegar sumarfríin eru hafin. Því telur ritnefnd rétt að birta þær hér svo menn hafi eitthvað við að vera yfir hásumarið.

 

 

Í hverri línu er lýst karlmannsnafni:

Einn í dufti ávallt skríður: ______________________________
 
Annar skort á mörgu líður: _____________________________
 
Oft hinn þriðja eykir draga:_____________________________
 
Auga úr kind vill fjórði naga: ___________________________
 
Er sá fimmti aðkomandi:_______________________________
 
Ætla ég sjötti í veggjum standi: __________________________
 
Sjöundi gamall alltaf er: ________________________________
 
Áttunda á hverri nál þú sérð: ____________________________ 
 
Níundi múgur nefnist manns: ___________________________
 
Nafn ber tíundi skaparans: ______________________________
 
Ellefti verður aldrei beinn: ______________________________
 
Á þeim tólfta er saur ei neinn: ___________________________

Svo er hérna vísa um höfund gátunnar líka, ef einhver hefur ekki fengið nóg: 

Holdið skilur ei við sál.
Hér er nafn í felum.
Faðir minn heitir fremst á nál.
Fæddur í tveimur pelum.

2 fyrstu línurnar fela karlmannsnafn, 3 lína er föðurnafnið og 4 lína er bæjarnafnið.

Ef einhverjum tekst að leysa alla þrautina má hann senda svörin á strandir@strandir.saudfjarsetur.is og verður sá sami gerður að heiðursfélaga í Gátufélagi gamalla Kollfirðinga.