28/03/2024

Missið ekki af tunglmyrkvanum í fyrramálið!!!

Á morgun, þriðjudaginn 21. desember, verður almyrkvi á tungli og verður þá tunglið heldur en ekki rauðleitt og jólalegt á að líta. Svo skemmtilega vill til að þetta gerist á stysta degi ársins, á vetrarsólstöðum. Strandamenn allir, nær og fjær, eru hvattir til að vakna í tæka tíð og horfa til himins, en almyrkvinn hefst klukkan 7:40 og honum lýkur klukkan 8:54. Ef bærilega viðrar mun myrkvinn sjást vel frá Íslandi, þótt máninn sé lágt á lofti. Rétt er þá að gá í vesturátt, þar sem tunglið verður þá stundina, milli horna Nautsins og fóta Tvíburanna, rétt ofan við Óríon.