20/04/2024

Tilberar að fæðast

Nokkrir tilberar bíða þess að móðirin leiki þá höndumÞróunarvinna Strandagaldurs í minjagripagerð fyrir Galdrasýningu á Ströndum gengur afar vel að sögn Sigurðar Atlasonar verkefnisstjóra. Frá því að verkefnið hófst um síðustu mánaðarmót hefur verið unnið að hugmyndum að vönduðum handgerðum minjagripum sem tengjast verkefninu á einhvern hátt. „Það er sannarlega af nógu að taka því Galdrasýning á Ströndum fjallar raunar um svo marga hluti sem auðvelt er að setja í þrívíða mynd," segir Sigurður.

 „Við höfum lagt áherslu á að þróa aðferðir til að framleiða með hagkvæmri aðferð vandaða tilbera undanfarið og verkefnið virðist strax ætla að skila talsverðum árangri," bætir hann við og segir að tilberar séu afar sérstætt fyrirbæri í íslenskri þjóðtrú og að það megi segja að það að koma sér upp tilbera sé nánast eini íslenski kvenngaldurinn.

Dæmi eru um að sýslumenn hafi flett upp um konur til að reyna að sanna á þær ósóman og vitað er um einn prest sem missti hempuna vegna fyrirgangs að sanna sekt gunaðra tilberamæðra. Hér á Ströndum var kona Jóns glóa, galdramanns í Goðdal grunuð um að ala tilbera. Um það segir í sögn úr Bjarnarfirði þar sem presturinn á Stað neitaði að lána Jóni glói hest, nema konan hans léti af því að ala tilbera.

Ásdís Jónsdóttir handverkskona á Hólmavík er starfsmaður verkefnisins. Hér að neðan eru ljósmyndir af komandi framleiðslu og þar er hægt að sjá stærðina á þeim miðað við eldspýtustokk. Þeir verða pakkaðir í lítil plastbox þar sem verður að finna allar upplýsingar um þetta fyrirbæri úr íslenskri þjóðtrú. Neðan við myndirnar er svo hægt að lesa sér til um tilbera.

center

Tilberi stendur upp á endann, eldspýtustokkurinn sýnir glögglega stærðina á honum. Þeir verða u.þ.b. 9 cm á lengd.

galdrasyning/580-tilberahausar3.jpg

Tilberarnir frá Galdrasýningu á Ströndum er afar sérstætt handverk og minjagripir og verða pakkaðir í plastbox þar sem fram koma allar upplýsingar um tilvist þeirra.

Tilberar
Til að gera tilbera þá þarf kona að fara í kirkjugarð á hvítasunnumorgni og grafa upp rifbein af manni. Svo vefur hún það grárri sauðaull og fer næstu þrjá sunnudaga til messu. Hún gengur til altaris og dreypir á víninu en kyngir því ekki, heldur spýtir því niður á milli brjósta sér. Þannig skapast tiberinn og konan nærir hann á spena sem hún hefur gert sér ofarlega innanlæris.

Tilberinn nærist á spenanum, þar til hann er orðinn nógu þroskaður til að stela mjólk fyrir móðurina frá öðrum bændum. Þegar tilberamóðirin verður gömul og lúin þá þarf hún að fyrirfara tilberanum og skipar honum því á fjöll að tína saman öll lambaspörð á þremur afréttum í eina hrúgu. Á því sprengir tilberinn sig, svo eftir liggur einungis mannsrifið úr kirkjugarðinum. Einnig er hægt að farga tilbera með því að rista galdrastafinn Smjörhnút í silfurplötu og skjóta í hann. Þá springur hann.

Að koma sér upp tilbera, eða snakk er eingöngu kvennagaldur og samkvæmt þjóðtrúnni þá notuðu konur hann til að draga björg í bú, en tilberinn hljóp út um haga að skipan móðurinnar og saug mjólk úr ám. Hann stökk upp á hrygg þeirra og saug þær með báðum hausum á sitthvorum enda búksins. Tilberamóðirin gerði svo smjör úr mjólkinni sem kallað er tilberasmjör.

Galdrastafurinn Smjörhnútur er einnig notaður til að vita hvort smjör sé tilberasmjör eða ekki, með því að marka stafinn í smjörstykkið. Ef það er tilberasmjör þá hjaðnar það niður eins og froða, eða springur í þúsund mola.

.