Categories
Frétt

Þrjú verkefni á Strandavegi hafa dregist

Strandavegur (nr. 643) hefur verið nokkuð í umræðunni upp á síðkastið, en hann liggur um norðanverðar Strandir, úr botni Steingrímsfjarðar og um Bjarnarfjarðarháls og Veiðileysuháls norður í Árneshrepp. Kristján Möller samgönguráðherra sagði veginn erfiðan í umræðum á Alþingi í síðustu viku þegar rætt var um snjómokstursreglur sem eru í stuttu máli þær á þessari leið að ekki er gert ráð fyrir snjómokstri frá 1. nóvember fram í miðjan mars. Virðist sú regla nú eiga að gilda óháð tíðarfari, en Árneshreppur er eina sveitarfélagið á Íslandi sem ekki nýtur vegasambands allt árið. Alls hafa þrjú verkefni á þessum vegi dregist eða verið frestað síðustu árin, sem öll hefðu verið spor í rétta átt.

Í fyrsta lagi átti að vinna í vegabótum frá Kolbeinsvíkurá til Djúpavíkur á árunum 2009 og 2010, en ekkert bólar á þeim framkvæmdum. Samkvæmt gildandi vegaáætlun fyrir árið 2007-2010 átti að setja 30 milljónir í þessa vegagerð 2009 og 29 milljónir 2010.

Í öðru lagi átti að setja 60 milljónir í vegagerð um Bjarnarfjarðarháls á árinu 2008 samkvæmt núgildandi Samgönguáætlun, en ekki bólar heldur neitt á framkvæmdum þar. Að auki hefur brú yfir Bjarnarfjarðará lengi beðið lagfæringa og stendur fréttaritari í þeirri meiningu að fjármagn í þá framkvæmd hafi beðið frá árinu 2006 án þess að það hafi verið notað. Allt slíkt fé sem flutt hefur verið milli ára og ekki framkvæmt fyrir hefur nú verið fellt niður. 

Í þriðja lagi var sérstakt flýtiverkefni og mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar í þorskveiðum að ljúka gerð heilsársvegar milli Hólmavíkur og Drangsnes. Þessu verkefni er að miklu leyti lokið, en þó er eftir 2,5 km kafli á Strandavegi innst við norðanverðan Steingrímsfjörð, frá vegamótum í Staðardal að Geirmundarstöðum. Átti að ljúka þessari vegagerð árið 2009 með framlagi af söluandvirði Símans, en hún mun vera enn á teikniborðum Vegagerðarinnar. 

Þrátt fyrir að farið verði í þessar framkvæmdir verður enn eftir að tengja Reykjarfjörð og Trékyllisvík með nýjum vegi og þarf að vanda leiðarvalið þar til að sleppa við snjóflóða- og grjóthrunshættu á Kjörvogshlíðinni og innst í Reykjarfirði. Vel mætti hugsa sér að til að undirbúa þær framkvæmdir væri gerð skýrsla um framtíðarvegtengingu þarna á milli og stillt upp ólíkum valkostum og leiðum og kostnaði við þær. Og ekki dugir að horfa einungis á þá fjármuni sem ætlaðir eru í ferðamannaleiðir í því skyni að ljúka við heilsársveg í Árneshrepp, eins og verið hefur undanfarin ár, þar verður einnig að koma til fjármagn úr framlögum til tengivega sem þessi þjóðvegur vissulega er.

Vonandi er að úr rætist með samgöngumál í Árneshrepp, það er öllum Strandamönnum kappsmál. Það má líka öllum vera ljóst að það dugir ekki að styðja byggðina fyrir norðan einungis í orði en ekki á borði. Það er enginn leið að þræta fyrir það að staða mála við Strandaveg sýnir að ráðamenn, Samgönguráðuneyti, Vegagerðin og þingmenn, hafa brugðist Árneshreppsbúum í forgangsröðun verkefna í samgöngumálum. Erfiði vegurinn er á þeirra ábyrgð, hann er erfiður af því bæði vegurinn norður og fólkið sem í Árneshreppi býr hefur verið skilið útundan að yfirlögðu ráði.

Frekari tafir á framkvæmdum eru vonandi ekki valkostur, nú við gerð nýrra Samgönguáætlana.