23/12/2024

Þrjú lið áfram í Spurningakeppni Strandamanna

Þrjú lið komust áfram í átta liða úrslit í Spurningakeppni Strandamanna í gær, en þá var fyrsta keppniskvöldið haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir keppninni sem Strandamenn fjölmenntu svo sannarlega á, en tæplega 120 manns voru í húsinu þegar keppnin hófst. Fólk skemmti sér hið besta yfir keppnunum og nettum skotum milli liða sem náðu hámarki strax í fyrstu keppninni. Í hléi flutti tríó frá Leikfélagi Hólmavíkur tvö lög úr leikverkinu Þið munið hann Jörund sem nú er verið að æfa. Úrslit kvöldsins urðu sem hér segir:

Strandahestar – Skrifstofa Strandabyggðar = 10-20
Heilbrigðisstofnunin Hólmavík – Sundfélagið Grettir = 13-9
Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík – Hólmadrangur = 21-18

Eins og sjá má laut meistaralið Hólmadrangs frá því í fyrra naumlega í gras fyrir kennurum við Grunnskólann á Hólmavík í síðustu keppninni. Hólmadrangur er þó enn stigahæsta tapliðið í fyrstu umferð og kemst í átta liða úrslit ef ekkert annað lið nær hærra stigaskori. Keppnirnar þrjár voru misspennandi eins og sjá má á stigaskorinu, en áberandi þátttökugleði ríkti engu að síður meðal allra liðanna í gær. Arnar S. Jónsson, stjórnandi keppninnar, hafði orð á því að það væri það sem skipti öllu máli; að keppendur og áhorfendur skemmtu sér vel á góðri kvöldstund. 

Næsta keppniskvöld í Spurningakeppni Strandamanna er sunnudaginn 11. mars.

Ljósmynd

saudfjarsetur/540-spurn07-1.jpg

saudfjarsetur/540-spurn07-3.jpg

saudfjarsetur/540-spurn07-5.jpg

Ljósm. Hildur Guðjónsdóttir