23/09/2023

Gengið og gert gagn

Á morgun laugardaginn 28. maí  er fyrirhugaður mikill göngudagur í Kaldrananeshreppi. Var á útsendri áætlun gert ráð fyrir að gengið yrði frá Selá, norður að Ásmundarnesi og Drangsneshringurinn og tínt upp rusl í leiðinni. Markmiðið er að allir fái sér góðan  göngutúr og geri gagn í leiðinni. Búið er að skipta leiðinni upp í kafla sem bæði eru mislangir og misgjöfulir á rusl, þannig að í góðu lagi er að skipta bara köflunum upp verði þáttakan mikil. Einhverjir eru nú þegar búnir að ganga og gera gagn, en þar var á ferð dugnaðarfólk sem verður vant við látið á morgun laugardag en vildi samt skila sínu verki og vera með. Gott mál það.
 
 


Verður komið saman við samkomuhúsið Baldur á Drangsnesi og á Laugarhóli þar sem hægt er að fá ruslapoka til fararinnar og dreifa menn sér síðan um hreppinn. Áskriftarlisti fyrir vegspotta hefur legið frammi í kaupfélaginu á Drangsnesi þar sem fólk hefur getað skráð sig fyrir ákveðnum köflum og er greinilegt að mest ásókn er í þá vegspotta sem menn telja að gefi mest rusl. Bíll mun síðan fara um og tína upp afraksturinn, en glaðbeittir göngumenn bregða sér frítt í sund í Gvendarlaug hins góða í Bjarnarfirði og gæða sér á ljúffengum vöfflum hjá Matta á Laugarhóli.  
 
Í mörg ár hefur það verið siður á Drangsnesi að taka eina kvöldstund í það fyrir hvítasunnu að þrífa staðinn. Fyrstu árin má segja að róið hafi verið á gjöful ruslamið og mörg vagnhlöss af rusli verið flutt burt. En með þessu árvissa framtaki íbúanna hefur dregið verulega úr ruslaveiðinni og er létt verk á góðu vorkvöldi að tína upp það sem fokið hefur um veturinn.