29/05/2024

Samstaða norðanmanna fagnaðarefni

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður
Það er sannarlega ánægjulegt að verða vitni að þeirri órofa samstöðu sem birtist meðal stjórnmálaleiðtoga og talsmanna fyrirtækja á Norðurlandi vestra þessa dagana, nú síðast í fréttatilkynningu frá stjórnarfundi SSNV þann 19. febrúar.

Átta ár af tólf

Neikvæð þróun á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum hefur tekið á sig ýmsar birtingarmyndir og nú síðast í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Byggðastofnunar þar sem sýnt var fram á 6% neikvæðan hagvöxt á árunum 1998-2004. Öruggt má telja að hagvöxtur hafi verið neikvæður um enn lengri tíma eða allt til dagsins í dag þar sem aðalþungi framkvæmda fyrir austan og á höfuðborgarsvæðinu hefur einmitt verið síðustu tvö árin. Á sama tíma hefur ekkert verið að gerast sem um munar á okkar svæði. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Norðvesturkjördæmi munu því væntanlega líta stoltir framan í íbúa Norðurlands vestra og Vestfjarða núna í kosningabaráttunni framundan, minnugir þess að á 8 síðastliðnum árum af 12 ára valdasetu þeirra hefur atvinnulíf, meðaltekjur og mannfjöldi  verið á samfelldri niðurleið í þessum kjördæmum tveim því ekki er hægt að ráða af orðum þeirra né gerðum að þeir telji sig hafa nokkuð með þessa þróun að gera.

Aðgerðir sem um munar

Drög að vaxtarsamningi, sem heimamenn hafa unnið af mikilli alúð og felur í sér ýmsa möguleika, eru ekki líkleg til að skila breytingu sem um munar ef ekki kemur verulegt fjármagn til framkvæmdar væntanlegs samnings og uppbyggingar atvinnulífsins. Það eru skilaboðin sem norðanmenn eru að senda ríkisstjórn Íslands þessa dagana.

"Ekki mér að kenna…"

Iðnaðaráðherra sagði í viðræðum við undirritaða á Alþingi fyrir nokkrum dögum að ekki væri stjórnarstefnunni um að kenna hvernig komið væri fyrir Norðurlandi vestra. Um það erum við ósammála. Stjórnarstefnan hefur sett efnahagslífið á annan endann, stjórnarstefnan hefur einblínt á mið-Austurland og Akureyri en látið önnur landsvæði afskipt, stjórnarstefnan hefur dregið úr framkvæmdum á svæðum þar sem hagvöxtur er neikvæður, stjórnarstefnan hefur skilað landsmönnum mestri misskiptingu á eftir Bandaríkjunum og Bretlandi. Og svo mætti áfram telja en það er óþarfi þar sem almenningu finnur á eigin skinni hverju stjórnarstefnan hefur skilað þeim.

Það er mál að linni og jafnaðarstjórn taki við.

Anna Kristín Gunnarsdóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi