29/03/2024

Strandagaldur í bókaflóði

Vinnuútllit bókarinnar Ástargaldrar„Allt frá örófi alda hefur það verið eitt helsta umhugsunarefni ungra pilta og stúlkna hvernig þau geti haft áhrif á hitt kynið og vakið hjá því löngun í náin kynni. Yfir þessu hefur margur maðurinn orðið andvaka. Og þegar öll hefðbundin ráð til að heilla hitt kynið bregðast, freistast sumir til að beita galdri, reyna að virkja dulda krafta sér til hjálpar og fá sjálf náttúruöflin í lið með sér."

Þetta eru upphafsorð í inngangi bókarinnar Ástargaldrar sem er samstarfsverkefni Strandagaldurs og forlagsins edda uk Ltd. í Cambridge, Bretlandi.

Þetta er fyrsta bókin af nokkrum í ritröð um galdrastafi og tákn um víða veröld og verður gefin út á ensku, þýsku og norsku, auk íslensku. Bókin á að höfða til almennra lesenda og gefa innsýn í galdrahugmyndir um víða veröld.

Um þessar mundir eru Ástargaldrar í þýðingu, en bókin kemur væntanlega út á vordögum. Unnið er að samningum um útgáfu næstu bókar í ritröðinni sem mun fjalla um hverskyns verndargaldra. Galdrastafurinn Ægishjálmur sem er tákn Strandamanna verður að öllum líkindum upphafsstafur þeirrar bókar, enda einn magnaðasti verndarstafur sem sögur fara af.

 Öll ritstjórn er í höndum Strandagaldurs og ritstjóri er Jón Jónsson þjóðfræðingur. Efnið í bókina var safnað af Rakel Pálsdóttur þjóðfræðingi. Bókin verður að sjálfsögðu fáanleg í sölubúð Galdrasýningar á Ströndum þegar þar að kemur.

Strandagaldri er kunnugt um aðra erlenda bók sem er í vinnslu í New York og verður gefin út síðar á árinu, þar sem farið er um galdraslóðir um víða veröld og fjallað verður sérstaklega um Strandir í einum kaflanna. Sú bók verður einnig gefin út af bresku útgáfufyrirtæki. Höfundur þeirrar bókar er Judik Illes.