22/12/2024

Stranda “oldboys” koma saman

Fyrirhugað er að hóa saman hóp Strandamanna sem stundaði knattspyrnu hér á árum áður og voru upphafsmenn Strandaboltans svokallaða, en það er vikulegur tími þar sem Strandamenn sunnan heiða hittast og sprikla í innanhússbolta. Megin uppistaðan í þessum hóp var Gullaldarlið HSS sem toppaði nokkru eftir miðja síðustu öld, en nýverið fengu þeir einmitt áskorun um að mæta norður á Strandir og taka þátt í innanhússmóti á Hólmavík þann 19. nóv. næstkomandi. Var vel tekið í það og skórnir verða teknir af hillunni frægu, já eða nýir keyptir.

Til að uppfæra leikkerfin og kann hvort eitthvað hafi breyst í boltanum, reglur eða annað, er Þorkell Jóhannsson nú staddur í mekka knattspyrnunar, London, og mun síðan miðla af ferð sinni í Íþróttahúsinu að Varmá (sal 2) í Mosfellsbæ næstkomandi miðvikudag, þann 16. nóv. kl. 22:00. Eru allir Stranda-“oldboys” hvattir til að mæta og kanna hreyfigetuna.

Liðsmenn HSS 1976. Efri röð frá vinstri: Magnús Ólafs Hansson, Ísak Pétur Lárusson, Þorkell Jóhannsson, Hjálmar Halldórsson. Fremri röð frá vinstri: Örn Stefánsson, Andrés Guðbjörn Jónsson, Steinþór Benediktsson (sjáiði skóna strákar!), Guðmundur Viktor Gústafsson, Kristmundur Stefánsson, Sigfús Guðmundsson og Gunnlaugur Bjarnason fyrirliði.


 
Magnús Hansson í leikbanni fylgist með bikarleik á móti Breiðablik 1978

Andrés skorar í leik á Sævangi á móti Grundfirðingum 1977


 
Skorað hjá Blikum 1978. Örn Stefáns með boltann á móti Breiðablik, að hans sögn varð einmitt mark úr þessari sókn.