19/04/2024

Val á Strandamanni ársins 2005 lokið

Kosningu á Strandamanni ársins 2005 er nú lokið og talning fer fram við fyrsta tækifæri. Úrslitin í kosningunni verða síðan kynnt hér á vefnum næstkomandi þriðjudagskvöld. Valið fór að þessu sinni fram í tveimur umferðum, í fyrri umferð var tekið á móti tilnefningum og í síðari umferð var kosið á milli þeirra þriggja sem flest atkvæði fengu. Þátttaka var feykilega góð. Þeir þrír sem kosið var á milli í lokaumferðinni voru:

Aðalheiður Ólafsdóttir söngkona frá Hólmavík sem gerði garðinn frægan í Idol-keppninni síðastliðið vor og gaf síðan út sólóplötu fyrir jólin. Guðbrandur Einarsson frá Broddanesi sem gekk hringveginn í sumar með félaga sínum undir kjörorðinu Haltur leiðir blindan til að vekja athygli á starfsemi Sjónarhóls og málefnum fatlaðra barna og þeirra sem eiga við erfið og langvarandi veikindi að stríða. Jón Jónsson ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is og ferðafrömuður á Kirkjubóli sem hefur undanfarin ár unnið að margvíslegum menningarauka á Ströndum og atvinnuskapandi verkefnum í héraðinu.