27/02/2024

Flöskuskeyti staldrar við

Þegar tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is gekk á reka síðla dags sá hann fallega flösku í þanghrönn. Við skoðun reyndist hún innihalda skeyti þ.e.a.s. flöskuskeyti. Skeytið sendi ungur maður vini sínum í Kópavogi.  Reyndar leikur grunur á að mamma hafi skrifað fyrir hann enda bréfritarinn ekki nema fimm ára. En skeytið er svohljóðandi: Klettakot á Ströndum 1. ágúst 2005. Ég heiti Guðlaugur Hrafn Kristjánsson og er 5 ára gamall. Vinur minn heitir Elvar Páll og hann á heima í Kópavogi. Kannski fær hann þetta flöskuskeyti. Ef einhver annar finnur þetta skeyti þá væri gaman að frétta af því. Guðlaugur Hrafn Kristjánsson, Melgerði 18, 200 Kópavogur.

Þetta er ekki fyrsta flöskuskeytið sem rekur á fjörur þetta haustið en fyrr í haust fannst skeyti sem Garibaldi Ívarsson úr Garðabænum hafði sent. Þessum ungu herramönnum verður sent bréf með venjulegum pósti til að láta þá vita hvar skeytin þeirra eru stödd. En flöskupósturinn verður svo sendur áfram eftir hefðbundinni leið. Sendur til hafs í hagstæðum vindi. Kannske fær Elvar Páll skeytið sitt á Kópavogsfjöruna að lokum.

Vel er um flöskuskeytið búið, enda heldur það nú ferð sinni áfram.