28/04/2024

Stóriðjulausir Vestfirðir – Sóknarfæri til framtíðar

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Heldur er dapurlegt að fylgjast með skrifum Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra á Ísafirði og formanns Sambands sveitarfélaga um olíuhreinsunarstöð sem neyðarlausn fyrir Vestfirðinga. Í grein sinni fyrr í mánuðinum reyndi hann að varpa ábyrgðinni á erfiðri stöðu Vestfirðinga yfir á umhverfissinna. Hins vegar forðaðist hann að draga til ábyrgðar hina raunverulegu sökudólga í þeirri alvarlegu stöðu sem íbúar Vestfjarða standa frammi fyrir.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins

Er það ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem hefur farið með völd í þessu landi nú samfellt í 17 ár?  Sá flokkur hefur átt forsætisráðherrann nánast allan þennan tíma, sömuleiðis fjármálaráðherrann, sjávarútvegsráðherrann, samgönguráðherrann og menntamálaráðherrann. Sumir af þessum ráðherrum hafa meira að segja verið þingmenn Vestfjarða. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og síðan með Framsókn, ber auðvitað ábyrgð á þeirri stefnu sem framfylgt hefur verið gagnvart Vestfjörðum.
Og hvað hefur gerst?  Árið 1991 voru íbúar Vestfjarða 9.740 en í árslok 2007 eru þeir 7.309. Það er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sem ber á byrgð á stöðugum niðurskurði á framlögum til vegamála í fjórðungnum og sviknum loforðum. Sama ríkisstjórn ber ábyrgð á því að sjávarbyggðirnar hafa misst burt réttinn til að sækja sjó á fiskimiðunum fyrir ströndum þeirra. Landaður afli á Vestfjörðum var 99.367 tonn árið 1992, fór hæst árið 1996 í 110.146 tonn en síðustu 3 árin hefur hann verið liðlega 40 þús. tonn. Hlutdeild þeirra í heildarafla landsmanna hefur fallið úr 9,32% 1991 í um 3% árið 2006.

Eindrægni er þörf

Nú þegar Vestfirðingar reyna enn á ný að njóta sérstöðu sinnar með fiskinn fyrir ströndinni til uppbyggingar nýrri atvinnugrein, ferðaþjónustu með sjóstangveiði, hlaupa stjórnvöld til og setja þeim fótinn fyrir dyrnar. Samkvæmt tillögum sjávarútvegsráðherra verður þessi nýja atvinnugrein að kaupa eða leigja kvóta á uppsprengdu verði  fyrir sjóstangveiðina, ef hann er þá yfirleitt falur. Þessi krafa ráðherrans leggur þunga byrði á nýja atvinnugrein og getur reynst henni ofviða. Nú hafa um 3000 manns pantað sjóstangveiði á þessu ári. Stjórnvöld ættu að leggja þessari nýju grein lið fremur heldur en að torvelda sóknarmöguleika hennar.

Framtíðarsýn  Vinstri-grænna

Ég hef aldrei skilið linkuna í forystumönnum Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum  gagnvart ráðherrum sínum í vegamálum. Dettur nokkrum Vestfirðingi í hug að Steingrímur J. Sigfússon eða einhver annar þingmaður Vinstri grænna hefði látið hafa sig í það að boða frestun á vegaframkvæmdum á Vestfjörðum til að slá á þenslu á suðvesturhorninu vegna stóriðjuframkvæmdanna umhverfis Reykjavík og fyrir austan? Svari hver fyrir sig í þeim efnum.

Ég hef hitt marga Vestfirðinga sem vildu óska sér að Steingrímur J. Sigfússon hefði verið samgönguráðherra áfram. Þeir minnast harðfylgi hans þegar ákvörðun var tekin um Vestfjarðagöngin og einnig það að þau skyldu ná til Súgandafjarðar.

Vestfirðingar eiga mikla  möguleika á grunni  einstæðra  náttúruauðlinda til  eflingu byggðar og atvinnulífs.  Krafti og hug íbúanna  hefur verið viðbrugðið í gegnum aldirnar og svo er enn.

En þeir krefjast jafnræðis við aðra landsmenn  í samgöngum, fjarskiptum og annarri almannaþjónustu, ásamt forræði yfir fiskimiðum sínum.

Áfram stóriðjulausir Vestfirðir

Vestfirðingar með Halldór Halldórsson í fararbroddi vöktu landsathygli og virðingu á sínum tíma fyrir yfirlýsinguna um stóriðjulausa Vestfirði. Sú yfirlýsing vakti von í brjósti allra þeirra sem vilja byggja upp atvinnulíf sem byggir á fjölbreytni og nærfærni gangvart náttúrinni og lífríkinu. Ég held einmitt að þessi stefnumarkandi sýn fyrir Vestfirðina hafi ráðið nokkru um að Halldór var studdur til formennsku Sambands sveitarfélaga. Óvinur Vestfjarða var hins vegar  blind stóriðjustefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem  sá ekkert nema álver í hvern fjörð.

Sú stefna hleypti af stað þenslu, háum vöxtum, gengi og byggðaröskun sem bitnaði hart m.a á Vestfirðingum.
Það er ábyrgðarhluti ef forystumenn Vestfjarða taka nú þátt í að kynda upp enn frekar óraunhæfar væntingar í uppbyggingu mengandi stóriðju í fjórðungnum.

Einstæð náttúra – sérstaða Vestfjarða

Svo sannarlega þarf að snúa vörn í sókn í byggðamálum, en það verður ekki gert með því að leggjast flatur og gefast upp gagnvart þeim sem telja að stóriðja sé framtíðin  fyrir Vestfirðinga. Ég hvet bæjarstjórann til að krefjast stefnubreytingar stjórnvalda, berja frekar á  Sjálfstæðisflokknum sem verið hefur við stjórnvölinn undanfarin 17 ár og  standa með þeim sem sjá framtíðina í óspilltri náttúru og auðlindum Vestfjarða.

Jón Bjarnason,
þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi