26/04/2024

Áróður úr vasa almennings

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir, þingmaður
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, spurðist fyrir um það á Alþingi  fyrir skömmu hvort rétt væri að heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins hefði notað fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að kosta "kynningarbækling" á markmiðum síðum í málefnum aldraðra.  Svo reyndist vera, þingheimi og almenningi til mikillar furðu.  Framkvæmdasjóður aldraðra er til orðinn með nefskatti sem leggst á hvern einasta skattgreiðanda á Íslandi og er ætlaður til uppbyggingar á hjúkrunar- og þjónustuhúsnæði fyrir aldraða.

Undirrituð, ásamt Guðbjarti Hannessyni 1. manni á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi,  sat á sunnudaginn "kynningarfund" á Blönduósi á vegum samgönguráðuneytisins þar sem auglýst  umfjöllunarefni var tillaga að samgönguáætlun.  Okkur Guðbjarti var brugðið þegar við gerðum okkur grein fyrir því að samgönguráðherra fetaði í fótspor heilbrigðisráðherra sem áður er lýst og nýtti þarna fjármuni almennings til pólitísks áróðurs fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn. 

Fyrstu 15 mínútur fundarins fóru í lýsingu á skattalækkunum ríkisstjórnarinar, málefni sem kemur þeim sem á hlíddu því miður ekkert til góða þar sem flestir íbúar Húnaþings, reyndar meiri hluti íbúa Norðvesturkjördæmis, teljast til tekjulægsta hóps Íslendinga og örugglega enginn til þeirra tekjuhæstu.  En eins og kunnugt er hefur skattbyrði einungis lækkað á tekjuhæsta hópi samfélagsins en hækkað á þeim lægst launuðu.  Samgönguráðherrann virðist ekki alveg hafa gert sér grein fyrir kjörum þeirra sem hann var að tala við í þetta sinn.

Síðan var hlaupið á hundavaði yfir mismunandi þætti samgönguáætlunar en skotið inn áróðri og pillum á ónafngreinda pólitíska andstæðinga, eftir því sem ráðherranum fannst henta og hann fann sér tilefni til.  Sérstaka athygli vakti hvernig ráðherrann varpaði ábyrgð á flugvallarekstri á Blönduósi á nýstofnað opinbert fyrirtæki, Flugstoðir, og lét eins og honum kæmi flugvallarekstur á landinu almennt ekkert við lengur.  Ætli það sé nú trúlegt?  Ætli Alþingi hafi ekki eitthvað með fjármögnum viðhalds og framkvæmda að gera, svo dæmi sé tekið.  Ráðherrann kynti auk þess undir átök milli landsbyggðar og höfuðborgar í máli sínu, nokkuð sem undirritaðri finnst síður en svo ástæða til. 

Áróður og umfjöllun um annað en samgöngumál tók hátt í helming tímans sem framsaga ráðherrans stóð en við urðum því miður að yfirgefa svæðið í þann mund sem fyrirspurnir hófust.

Þessi tvö dæmi eru viðkomandi ráðherrum til vansa.

Anna Kristín Gunnarsdóttir,
alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi