03/05/2024

Höfnum eignaupptöku

Aðsend grein: Valdimar Sigurjónsson
Íslenskur landbúnaður hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum er hann hefur aðlagast og fylgt þeirri öru þróun sem orðið hefur á íslensku samfélagi. Hvað ánægjulegast við þróun undanfarinna ára er jákvæðara viðhorf almennings gagnvart íslenskum landbúnaði. Vil ég þakka það þrautseigju og dugnaði bænda við að halda á lofti gæðum framleiðslunnar, miklum samningsvilja þeirra ásamt vilja ríkisvaldsins til að viðhalda traustu og stöðugu umhverfi gagnvart atvinnu og framleiðslu bænda. 
 

Nýlega undirritaði landbúnaðarráðherra nýjan samning um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar en með honum er starfsumhverfi sauðfjárræktenda tryggt til næstu sex ára. Árið 2004 var undirritaður nýr mjólkursamningur sem gildir til 2012 og þar með hefur starfsumhverfi helstu landbúnaðargreina landsins verið tryggt til lengri tíma.

Breytt  rekstrarumhverfi og sú mikla tækniþróun sem átt hefur sér stað í landbúnaði á síðustu árum hefur kallað á miklar fjárfestingar. Til að geta mætt þeim fjárfestingum þarf öryggi og stöðugleika ásamt því að við stöndum vörð um eignarréttinn.

Þessi þróun hefði vart átt sér stað ef væntingar um áframhaldandi rekstraröryggi og stöðugleika væru ekki fyrir hendi.

Eitt atriði hefur ekki fengið mikla umfjöllun en það er umræðan um eignarhald á jörðum utan þjóðlendna. Okkur tókst að stöðva forkastanleg vinnubrögð fjármálaráðherra í þjóðlendumálinu og fram undan er barátta um að slíkt endurtaki sig ekki. En fáir hafa fjallað um vilja ákveðinna afla til enn frekari eignaupptöku hjá bændum. Af orðum sem fallið hafa er ljóst að ákveðinn vilji er til þess að ráðskast með jarðeignir bænda, þ.e. taka af bændum ráðstöfunarréttinn á jörðunum. Umræðan hefur ekki farið hátt en ýmislegt látið í veðri vaka. Vil ég vekja sérstaka athygli á nefndaráliti er Jón Bjarnason alþingismaður gerði fyrir hönd minnihluta landbúnaðarnefndar alþingis árið 2004 er fjallað var um jarðalög. (130. löggjafarþing 2003–2004. Þskj. 1802 -783. mál.)

Í nefndaráliti minnihluta landbúnaðarnefndar segir m.a:
 
„Eitt megininntak frumvarpsins er að rýmka um öll ákvæði sem lúta að því að taka land úr landbúnaðarnotum; stuðla á að „frelsi“ í viðskiptum með land og náttúruauðlindir og litið er á jarðeignir sem forgengilega hluti eins og hús eða bíl. Minnihlutinn er andvígur þeirri nálgun. Land og landgæði er í sjálfu sér félagsleg eign framtíðarinnar. Við erum gestir á „Hótel Jörð“ eins og Tómas Guðmundsson kvað. Yrði það varla vel séð að hótelgestir hefðu mjög frjálsar hendur um nýtingu, meðferð eða sölu herbergis meðan þeir dveldust þar.“

Ég hvet þig lesandi góður til að íhuga vel þessi orð þingmannsins þar sem bókaður er vilji minnihluta landbúnaðarnefndar til stórfelldrar eignaupptöku hjá bændum með því að skilgreina land og landgæði bænda sem félagslega eign framtíðarinnar. Hver getur verið gestur á eigin landi?

Stuðningur við Framsóknarflokkinn á kjördag kemur í veg fyrir að þessar hugmyndir nái fram að ganga.

Valdimar Sigurjónsson
Höfundur er í þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi