24/04/2024

Nýja ferska velferðarstjórn

Aðsend grein: Guðbjartur Hannesson
Ágætu kjósendur! Nú líður að kjördegi. Kosningabaráttan stendur um það hvort landsmenn ætla að krefjast breytinga með atkvæði sínu. Stjórnmálaflokkarnir hafa kynnt sín stefnumál með alls kyns útgáfum og auglýsingum. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa klæðst kosningarbúningum sínum og á örvæntingarfullan hátt hlaða ráðherrar þeirra niður samþykktum, undirskriftum, skuldbindingum og viljayfirlýsingum um byggingar og útgjöld sem eiga að koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili, verk sem ríkisstjórnin hefur ekki haft dug til að ljúka kjörtímabilinu, loforð sem nýrri ríkisstjórn er ætlað að efna. Allt í einu hefur stjórnin þannig áhuga á kjörum eldra fólks og öryrkja og tekur upp ýmis mál stjórnarandstöðunnar, sem felld voru á síðastliðnu þingi. Við þekkjum loforð og efndir ríkisstjórnarinnar og látum ekki blekkjast.

Misskipting í góðærinu

Á liðnum árum hafa framfarir í íslensku samfélagi orðið verulegar, hagvöxtur umtalsverður og kaupmáttaraukning almennt mikill eins og víðast í Evrópu.  Það sem hefur þó einkennt síðasta kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar er bæði efnahagslegur og stjórnmálalegur óstöðugleiki.  Þrír hafa gegnt forsætisráðherraembætti auk annarra ráðherraskipta. Ofþensla hefur ríkt og verðbólgan rokið upp, viðskiptahalli hefur aldrei verið meiri, gengið sveiflast upp og niður og vaxtakjör með þeim hæstu í Evrópu.  Ísland var með baktjaldamakki sett á lista vígfúsra þjóða í Írakstríðinu og misskipting hefur stóraukist og réttlætiskennd þjóðarinnar misboðið með ofurgróða margra um leið og sífellt fleiri teljast búa við fátækt og biðlistar lengjast.  Samfylkingin boðar breyttar áherslur.  Við setjum velferðarmálin í forgang og teljum brýnt að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar og endurreisa velferðarkerfið í anda jafnréttis og réttlætis.  

Réttlátara samfélag

Samfylkingin telur réttlætismál;
að íbúar okkar ágæta lands búi við sambærileg búsetuskilyrði,
að bæta hag barna og ungmenna,
að eyða biðlistum eftir hjúkrunarrýmum með byggingu 400 nýrra rýma og afnema þvingað sambýli á hjúkrunarheimilum,
að afnema kyndbundinn launamun og tryggja fullt jafnrétti kynjanna,
að bæta kjör eldri borgara meðal annars með 100 þúsund króna frítekjumarki og 10% skatti á lífeyristekjur,
að fjárfesta í menntun á öllum skólastigum og tryggja gott aðgengi að framhalds- og háskólamenntun um allt land,
að skólar verði gjaldfrjálsir frá leikskóla til háskóla og kjör námsmanna bætt,
að fjölskyldufólk eigi kost á sveigjanlegum vinnutíma,
að stimpilgjöld verði afnumin,
að hér verði Evrópuverð á vörum og þjónustu,
að skapa skilyrði fyrir nokkur þúsund störf í hátæknigeiranum,
að ná jafnvægi í efnahagsmálum,
að stórefla samgöngur þannig að landsmenn allir búi við jöfn tækifæri,
að vernda verðmæt náttúrusvæði.

Kynntu þér kosningastefnu Samfylkingarinnar Góðar hugmyndir að betri framtíð nánar á www.xs.is. Viljirðu nýja og ferska ríkisstjórn, traust atvinnulíf, jafnvægi í efnahagsstjórn og velferðarmálin og málefni barna og fjölskyldna sem forgangsmál, þá gefurðu skýr skilaboð með atkvæði greiddu Samfylkingunni. Verum í S-inu okkar á kjördag.

Guðbjartur Hannesson, skipar 1. sæti Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.