22/12/2024

Stefnumót safna, setra og sögusýninga á Vestfjörðum

Starfsfólki og stjórnendum safna, setra og sögusýninga hefur verið boðið á stefnumót í Edinborgarhúsinu á Ísafirði að í kvöld föstudaginn 15. maí og að morgni 16. maí og stendur dagskrá frá 20:00-22:00 á föstudagskvöld og 9:00-12:00 á laugardag. Allir áhugamenn um safnastarf og sögutengda ferðaþjónustu eru einnig hjartanlega velkomnir. Hugmyndin er að á Stefnumóti safna, setra og sýninga á Vestfjörðum hittist fólk sem vinnur að uppbyggingu og þróun safna, setra og sýninga á Vestfjörðum, kynnist hvert öðru og beri saman bækur sínar, skiptist á reynslu og skoðunum, segi frá verkefnum sem verið er að vinna að og ræði um sameiginleg hagsmunamál.

Dagskrá – föstudagskvöldið 15. maí kl. 20:00

Gestir Stefnumótsins kynna starfsemi sinna sýninga, safna og setra, kynna sig og kynnast öðrum. Einnig verður kynntur vestfirskur safnabæklingur sem Markaðsstofa Vestfjarða hyggst gefa út í vor.

Laugardagur 16. maí kl. 9:00-12.00.

Umræður, samræður og spjall. Góðir gestir sem flytja fyrirlestra um söfn, setur og sýningar, menningartengda ferðaþjónustu, samstarf, atvinnuuppbyggingu, markaðssetningu og fleira:

Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, framkvæmdastjóri Selasetursins á Hvammstanga segir dæmisögu um vel heppnaða uppbyggingu seturs og ræðir um möguleika og tækifæri við slíka þróunarvinnu, m.a. við atvinnusköpun.

Guðbrandur Benediktsson sagn- og safnfræðingur, flytur erindi sem hann kallar: Ólíkir pólar? Minjavernd og menningarferðaþjónusta. Guðbrandur hefur einmitt rannsakað þetta efni töluvert, segir frá ólíkum skoðunum og togstreitu milli ólíkrar hugmyndafræði og veltir nú fyrir sér hvort ekki sé gáfulegra að byggja brýr en að dýpka skotgrafirnar.

Gísli Sverrir Árnason hjá fyrirtækinu R3 mun segja frá verkefni sem hann stýrir sem heitir Safnaklasi Suðurlands og byggir á samstarfi safna, setra og sýninga á Suðurlandi.

Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða dregur saman þræði og ræðir um möguleika svæðisins í þróun og uppbyggingu safna, setra og sýninga, og hvernig hún getur haft sem jákvæðust áhrif á byggð, atvinnulíf og mannlíf.

Allt áhugafólk um safnastarf, sýningahald og sögutengda ferðaþjónustu er hvatt til að mæta á stefnumótið sem er öllum opið. Það eru Valdimar J. Halldórsson forstöðumaður safnsins á Hrafneyri og Guðfinna Hreiðarsdóttir formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða sem hafa undirbúið stefnumótið, ásamt Jóni Jónssyni menningarfulltrúa Vestfjarða.