26/04/2024

Vestfirsk listamannaþing á laugardag

Laugardaginn 16. maí næstkomandi verður haldið Vestfirskt listamannaþing á Ísafirði og er listafólk af öllum Vestfjarðakjálkanum og aðrir áhugamenn um vestfirska list boðnir hjartanlega velkomnir á þingið. Á þinginu verður rætt um stöðu og framtíð listastarfsemi og einstakra listgreina á Vestfjörðum og munu listafólk úr hópi heimamanna segja frá hugðarefnum sínum í þessu samhengi, auk þess sem sagt verður frá listahátíðum á svæðinu. Þá mun Rúnar Guðbrandsson leikstjóri fara á flug um víðan völl á listamannaþinginu og flytja gestum hugvekju um möguleika og tækifæri vestfirskrar listar og listamanna, auk þess að varpa fram gommu af hugmyndum, stórum og smáum, framkvæmanlegum eða ekki.

Loks er ætlunin að leggja fyrir þingið og ræða hugmynd um stofnun Félags listafólks á Vestfjörðum sem gætu m.a. unnið að margvíslegum hagsmunamálum, kynnt menningarlífið á Vestfjörðum og eflt kynni listamanna innan fjórðungsins með öllum þeim möguleikum sem það opnar. 

Það eru Menningarráð Vestfjarða og Kómedíuleikhúsið sem standa að listamannaþinginu, en Kómedíuleikhúsið hefur áður staðið tvö ár í röð fyrir slíku þingi fyrir listafólk í Ísafjarðarbæ. Vestfirska listamannaþingið hefst kl. 14:00 og verður haldið í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu. Allir sem áhuga hafa eru hjartanlega velkomnir.

Dagskráin er á þessa leið:

LISTAMANNAÞING VESTFJARÐA
– Staða og framtíð listalífs á Vestfjörðum –
Laugardaginn 16. maí kl. 14 í Edinborgarhúsinu
Fundarstjóri: Jón Jónsson, menningarfulltrúi Vestfjarða

Minni listanna – fulltrúi frá hverri listgrein fyrir sig flytur pistil um stöðu og framtíð sinnar greinar, einnig má búast við að farið verði um víðan völl í þessum erindum. Fyrirlesarar eru:

Kvikmyndalist, heimildamyndagerðar – Kristinn Schram á Hólmavík
Myndlist – Marsibil G. Kristjánsdóttir á Ísafirði
Leiklist – Hannes Friðriksson frá Leikfélaginu Baldri Bíldudal (sökum anna Baldurmanna við söngævintýri í dag þá mun Guðrún Snæbjörg Sigþórsdóttir leikkona á Þingeyri flytja pistilinn)
Ritlist – Jón Páll Halldórsson á Ísafirði
Tónlist – Þröstur Jóhannesson á Ísafirði
Ljósmyndalist – Ágúst Atlason á Ísafirði

Listahátíðir á Vestfjörðum – fulltrúi frá hátíðum er haldnar eru árlega hér vestra, segir frá viðkomandi hátið, tilurð hennar, stutt um söguna og loks um framtíðina. Fyrirlesarar eru:

Act alone, leiklistarhátíð – Elfar Logi Hannesson, stofnandi og listr. stjórn ActAlone.
Aldrei fór ég suður, rokkhátíð – Hálfdán Bjarki Hálfdánsson, rokkstjóri
Skjaldborg, kvikmyndahátíð – Huldar Breiðfjörð, einn af stofnendum
Við Djúpið, tónlistarhátið – Fulltrúi frá hátíðinni

Menningartengd ferðaþjónusta – hvað er það fyrir nokkuð? – Jón Jónsson menningarfulltrúi og fyrrverandi formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða les mönnum pistilinn um þau fræði.

HLÉ – BOÐIÐ VERÐUR UPPÁ KAFFI OG KLEINUR

Sérstakur gestur þingsins Rúnar Guðbrandsson, leikstjóri, flytur erindi um tækifæri og möguleika vestfirskrar listar og listamanna, varpar fram gommu af hugmyndum, stórum sem smáum, framkvæmanlegum og ekki, einnig mun hann fara um víðan völl.

Félag vestfirskra listamanna (FVL) kynnt – Elfar Logi Hannesson kynnir hugmyndina að stofna félag vestfirskra listamanna – ef vel verður tekið í dæmið verður boðað til stofnfundar.

Orðið laust – opnar umræður og uppistand.