28/03/2024

Sýning um Alfreð Halldórsson opnuð næsta föstudag

aNæstkomandi föstudag, 22. maí kl. 20:00, verður formleg opnun í Sauðfjársetrinu í Sævangi á sérsýningu um Alfreð Halldórsson sauðfjárbónda á Kollafjarðarnesi. Afkomendur Alfreðs og Sigríðar Sigurðardóttur munu í tilefni opnunarinnar bjóða gestum upp á veglegar veitingar; kaffi og meðlæti eins og það tíðkaðist á Kollafjarðarnesi og gerðist hvað best á Ströndum. Einnig verður tónlistaratriði og Jón Alfreðsson mun lesa vel valin brot úr dagbókum föður síns. Allir Strandamenn eru hvattir til að mæta í Sauðfjársetrið á föstudaginn, en sýningin verður að líkindum uppi næstu tvö sumur. Hún er unnin af þeim Kristínu Jónsdóttur og Söru Regínu Valdimarsdóttur, en grunnur hennar var áður uppi á Þjóðminjasafninu sem hluti af sýningunni Lífshlaup.

Alfreð Halldórsson var fæddur í Miðdalsgröf  22. maí 1902. Hann tók við þeirri jörð fyrir tvítugt í samvinnu við móðurbróður sinn. Hann kvæntist Sigríði Sigurðardóttur árið 1926. Þau fluttust að Stóra-Fjarðarhorni árið 1933 og bjuggu þar í tvíbýli til ársins 1955. Þá fóru þau að Kollafjarðarnesi þar sem þau byggðu upp allan húsakost fyrir stórt fjárbú og votheysverkun en Alfreð var einn af frumkvöðlum hennar hér á landi. Á Kollafjarðarnesi bjuggu þau félagsbúi með syni sínum. Alfreð fylgdist vel með öllu er viðkom búskapnum og hélt dagbók frá unga aldri. Hann taldi það skyldu hvers manns að sinna samfélagslegum störfum og sat hann í hrepps- og sýslunefndum um áraraðir. Árið 1975 hætti hann búskap og fluttist til Hólmavíkur ásamt konu sinni þar sem hann bjó til dánardægurs árið 1981.