13/09/2024

Stefnt að stofnun félagsins Arnkatla 2008

Tákn StrandasýsluÍ vetur tóku nokkur ferðaþjónustufyrirtæki og einstaklingar á Ströndum þátt í námskeiði á vegum Útflutningsráðs sem heitir Hagvöxtur á heimaslóð. Í framhaldi af því hafa þátttakendurnir ákveðið að efna til öflugrar markaðsvinnu og tengist fyrst og fremst spurningunni um það hvernig Strandamenn geti undirbúið sig sem best fyrir opnun vegarins um Arnkötludal, sem er áætlað árið 2008. Að sögn Sigurðar Atlasonar eins forsvarsmanna hópsins ætlar hópurinn að nýta sameiginlega alla ráðgjafatíma sem voru innifaldir í námskeiðinu og blása til fundarhrinu sem hefst um miðjan september n.k.

HH-Strandir hópurinn eins og hann kýs að nefna sig mun bjóða öllum fyrirtækjum og sveitarfélögum á Ströndum að taka þátt í vinnunni ásamt fyrirtækjum í Reykhólahreppi og jafnvel víðar.

"Það er ekki eftir neinu að bíða" segir Sigurður. "Vinna við byggingu vegarins á að hefjast á þessu ári og er mikið verk, en það er ekki minni vinna sem Strandamenn og aðrir þeir sem vilja hafa akk af þessari framkvæmd þurfa að inna af hendi til að kynna veginn, undirbúa þjónustu heima fyrir og sjá til þess að margföldunaráhrif af gerð hans verði sem mestar fyrir samfélögin á Ströndum, í Reykhólahreppi og raunar öllum Vestfjarðakjálkanum. Það er alveg ljóst að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér og það er mjög spennandi og krefjandi vinna framundan."
 
Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá fyrirtækinu Netspor, sem hefur komið að hvers konar ráðgjöf við stefnumótun fyrirtækja og sveitarfélaga um allt land, hefur verið ráðinn til að stýra vinnunni í upphafi.