26/04/2024

Spurningakeppni Strandamanna hefst á sunnudaginn

Spurningakeppni Strandamanna hefst næstkomandi sunnudag, þann 25. febrúar kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Fjölmargar æsispennandi viðureignir munu fara fram á sunnudaginn, m.a. viðureign milli meistaraliðsins frá Hólmadrangi gegn kennurum í Grunnskólanum á Hólmavík sem eru tvöfaldir fyrrverandi meistarar. Auk þess mæta Umf. Neisti og Sundfélagið Grettir til leiks í fyrsta skipti. Skemmtiatriði í hléi á sunnudaginn verður tónlistaratriði úr leikverkinu Þið munið hann Jörund sem nú er í æfingu hjá Leikfélagi Hólmavíkur. Aðgangseyrir að skemmtuninni er aðeins kr. 500.- og frítt er fyrir 15 ára og yngri. Stjórnandi og spyrill er Arnar S. Jónsson frá Steinadal. Þessi lið mætast á sunnudaginn:

Strandahestar – Skrifstofa Strandabyggðar
Sundfélagið Grettir – Heilbrigðisstofnunin Hólmavík
Hólmadrangur – Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík

Fyrsta keppniskvöldinu sem fara átti fram þann 11. febrúar var frestað af óviðráðanlegum orsökum. Það keppniskvöld mun hins vegar fara fram sunnudaginn 11. mars og þar með lýkur fyrstu umferðinni. Aðrar dagsetningar verða auglýstar betur síðar.  Sunnudaginn 11. mars mætast þessi lið:

Ungmennafélagið Neisti – Vegagerðin
Sparisjóður Strandamanna – Félag eldri borgara
Leikfélag Hólmavíkur – Ferðaþjónustan Kirkjuból
Kaupfélag Steingrímsfjarðar – Grunnskólinn Drangsnesi