26/04/2024

Spjallað við spekinga

Eins og lesendur strandir.saudfjarsetur.is vita verður úrslitakvöld Spurningakeppni Strandamanna haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20:00 annað kvöld, sunnudaginn 20. mars. Spenningurinn fyrir keppninni er mikill, bæði meðal áhorfenda og keppenda í þeim fjórum liðum sem eftir eru í keppninni. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is hitti liðsmenn úr liðunum og tók þá tali í gær.

Sá fyrsti sem var tekinn tali var Hildur Guðjónsdóttir, einn af liðsmönnum liðs kennara við Grunnskólann á Hólmavík.

 

Eru kennarar orðnir spenntir fyrir keppninni?
Já, þannig séð … Við höfum samt varla haft tíma til að vera spennt núna undanfarna daga, það er búið að vera svo mikið að gera í þemavikunni hjá okkur að maður hefur ekki haft tíma til að hugsa um þetta.

Hefur liðið æft sig mikið?
Nei, ekki neitt. Mér finnst spurningarnar í keppninni vera þess eðlis að það er eiginlega ekki hægt að æfa sig – annað hvort veit maður þetta strax eða ekki. Ég ætla mér hins vegar að vinna upp söguþráðinn í sápuóperunum í sjónvarpinu um helgina, það er aldrei að vita nema maður fá eina svoleiðis spurningu.

Hvernig fara keppnirnar á úrslitakvöldinu?
Kennarar – Hólmadrangur. Við vinnum að sjálfsögðu, þrátt fyrir gott lið Hólmadrangs. Ætli ég skjóti ekki á  30-25 fyrir okkur.

strandir.saudfjarsetur.is – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps. Þessi verður rosalega spennnandi og erfitt að segja til um úrslitin. Skýt á 32-29 strandir.saudfjarsetur.is í vil.

Úrslitaviðureignin verður þá milli kennaraliðsins og strandir.saudfjarsetur.is?
Já, ef þetta fer eins og ég spáði hér rétt áðan. Þarna verður baráttan harðari en nokkru sinni fyrr, enda um úrslitaviðureign að ræða. Keppnin fer samt að lokum 30-28 fyrir okkur kennarana.

Hver er ykkar helsti styrkur?
Við vitum nokkuð oft svörin við spurningunum.

Einhver skilaboð til Hólmadrangs fyrir keppnina við þá?
Meira vinnur vit en strit.

# # #

Næst hitti fréttaritari einn af fulltrúum liðs Skrifstofu Hólmavíkurhrepps, Ásdísi Leifsdóttur sveitarstjóra. Hinir meðlimirnir, Salbjörg Engilbertsdóttir og Lára Jónsdóttir röbbuðu líka um keppnina.

Eru skrifstofukonur orðnar spenntar fyrir keppninni?
Auðvitað erum við spenntar. Þetta er orðinn árviss viðburður og ómissandi þáttur í lífi okkar allra, svona í svartasta skammdeginu. Okkur finnst þetta alltaf jafn gaman.

Hefur liðið æft mikið?
Það er ekki hægt að segja það, við höfum aldrei æft neitt að ráði. Við tókum að vísu eitt Trivial Pursuit fyrir ári síðan. Það er í raun ekkert hægt að æfa neitt sérstaklega fyrir þessa keppni, nema þá helst hraða og snerpu.

Hvernig fara svo keppnirnar?
Kennarar – Hólmadrangur. Miðað við frammistöðu Hólmadrangsmanna síðast þá gætu þeir vel unnið, en til þess þurfa þeir að vera í enn betra formi en þá. Þetta fer annars mikið eftir spurningum. Kennararnir eru með gott lið og eru löngu búin að sanna sig. Segjum 27-26 fyrir Hólmadrang.

strandir.saudfjarsetur.is – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps. Hér treystum við á að liðsmenn strandir.saudfjarsetur.is gleymi sér í kjaftagangi og fari flatt á því. Lokatölur verða 29-26 fyrir okkur.

Þannig að þið búist við úrslitaviðureign milli ykkar og Hólmadrangs?
Já. Við förum að lokum með sigur af hólmi eftir spurningu um hannyrðir. 31-30 fyrir okkur verður lokastaðan.

Hver er ykkar helsti styrkur?
Við förum langt á góða skapinu, almennri góðmennsku og bjartsýni.

Einhver skilaboð til strandir.saudfjarsetur.is fyrir keppnina við þá?
Öllu gamni fylgir nokkur alvara.

# # #

Hólmadrangsmenn voru í mat þegar fréttaritari átti leið þar um. Björn Hjálmarsson varð fyrir svörum og Þröstur Áskelsson skaut inn einu og einu svari.

Eruð þið spenntir fyrir keppnina á sunnudaginn?
Nei, nei, við erum þokkalega rólegir, höfum ekki fundið fyrir neinni spennu fyrir átökin en hún kemur kannski á sunnudaginn. Hér hafa engin frí verið gefin til að lesa heima.

Hafið þið æft mikið?
Nei, það er nú ekki hægt að segja það, við höfum í rauninni aldrei æft að ráði. Eitt árið var Raggi [Bragason á Heydalsá] eitthvað viðloðandi bókasafnið og þá lentum við í öðru sæti. Annars er ekkert sérstakt sem er hægt að lesa fyrir keppnina, þetta er mest svona almennur eða gagnslaus fróðleikur sem spurt er um. Annað hvort veit maður þetta eða ekki.

Hvernig fara svo keppnirnar?
Kennarar – Hólmadrangur. Þetta verður jöfn og spennandi keppni – en við ætlum að vinna. Ég hugsa að þetta vinnist ekki með meira en tveggja eða þriggja stiga mun. Skjótum á 27-25 okkur í hag.

strandir.saudfjarsetur.is – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps. Ætli Kollafjarðarliðið vinni ekki þessa. Ákveðnir aðilar innan þess eru með límheila og hinir með reynsluna. Skrifstofukonunum er hætt við hláturskasti og þess vegna verða strandir.saudfjarsetur.is sneggri á bjölluna. Lokatölur verða 28-22.

Þannig að úrslitaviðureignin verður Hólmadrangur – strandir.saudfjarsetur.is?
Já, ætli það ekki. Við treystum okkur nú varla til að spá fyrir um úrslit keppninnar. Skjótum samt á 25-24 fyrir okkur, eftir að Guðfinnur klikkar á spurningu um ártal og Jón á þjóðtrúarspurningu.

Hver er ykkar helsti styrkur?
Pétur er með náttúruna á tæru, Þröstur með biblíusögurnar og Björn með gagnslausa fróðleikinn. Við erum hins vegar arfaslakir í ljóðum og bókmenntum, en teljum að við séum með nokkuð alhliða þekkingu innanborðs.

Einhver skilaboð til kennaranna fyrir keppnina við þá?
Aðalatriðið er að vera með, ekki að vinna.

# # #

Síðasti keppandinn sem fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is ræddi við var Jón Jónsson, sem er í liði strandir.saudfjarsetur.is. Jón var staddur á bókasafninu að afla sér þekkingar, var að lesa í heimsmetabók dýranna þegar fréttaritari tók hann tali.

Eruð þið spenntir fyrir keppninni á sunnudaginn?
Við erum alveg að fara á taugum. Heiður Kollfirðinga og vefritsins mikla er í húfi. Ég hef ekkert getað borðað í viku og er bæði með hausverk og magapínu. Mig dreymir Viskubikarinn á hverri nóttu.

Hafið þið æft mikið?
Við höfum æft okkur fyrir þessa keppni alla ævi, allt liðið hefur keppst við að viða að sér fróðleik, bara til að nota hann svo í spurningakeppnum í framtíðinni. Við bræður höfum líka skipt með okkur verkum, þannig að ég hef stúderað himintunglin en Addi allt sem tengist jörðinni og því sem þar gerist. Það er gott að lesa alfræðibækur fyrir börn til að undirbúa sig fyrir svona keppni og það geri ég einmitt á hverju kvöldi fyrir börnin mín.

Hvernig fara svo keppnirnar?
Ég er hræddur um að hreppskrifstofan vinni okkur. Þær er alveg ótrúlega snjallar og fljótar að hugsa, jafnt lið og svo bæta þær hverja aðra upp með þekkingu á ólíkum sviðum. Það eru ekki mörg svör sem þær hafa ekki á reiðum höndum. Við erum meira á sömu línunni bæði ég og Guðfinnur og við Addi, ekki næg breidd í liðinu. Svo held ég að kennarar vinni Hólmadrang naumlega í hinum undanúrslitaleiknum, en tapi síðan fyrir hreppskrifstofunni í úrslitaleiknum eftir bráðabana. Þetta verður samt spennandi og við gerum okkar besta.

Hver er ykkar helsti styrkur?
Það er tvímælalaust þekking okkar á Íslandssögunni og þungarokki. Við erum hins vegar slakir í latínu og höfum ekki mikla tónlistarþekkingu að poppi og rokki undanskildu og þekkjum fáa fána, fiska, bæi, blóm og fugla. Myndefni er veikur hlekkur hjá okkur, við erum allir meira fyrir lesturinn og svo sér maður aldrei neinar skepnur þarna fram í Kollafirði aðrar en kindur, heiðlóu og silung.

Einhver skilaboð til skrifstofukvenna fyrir keppnina við þær?
Að hika er sama og tapa.