29/03/2024

Í kaffisopa á Klúku

Indriði Einar Reynisson skellti sér í bíltúr í fyrradag með Stínu fréttastjóra og Adda bílsstjóra. Ferðinni var heitið í Tungusveit að mynda hafís. Það var mjög kalt og leiðinleg gjóla. Í bakaleiðinnni var komið við í kaffisopa hjá Jóni og Finnu á Klúku. Við lentum í afmæliskaffi því frúin á bænum átti afmæli. Jón var svo spurður nokkurra spurninga:

Hefurðu alltaf búið á Ströndunum?
Nei, ég hef líka búið í Eyjafirði og Reykjavík
Hvað áttu mörg börn og hvar búa þau?
Ég veit nú ekki hvort þau eru ennþá börn, en þau eru fjögur. Það eru þrjú sem búa í Reykjavík og eitt býr á Hólmavík.
Hvað hefurðu verið lengi við búskap?
Ég hef verið um 29 ár við búskap.
Hve lengi starfaðirðu við bankann?
Ég starfaði um 43 ár við bankann.
Hvort er nú skemmtilegra að sýsla með fé í bankanum eða fjárhúsunum?
Auðvitað er skemmtilegra að sýsla með fé í fjárhúsunum. Það er mun skemmtilegra en að sýsla með fé í bankanum.
Hvernig er lífið í sveitinni?
Þetta er erfið spurning. Það er rólegt og gott. Hér getur maður slakað á og það er mjög gaman fá fólk í heimsókn hérna.
Manstu eftir að hafa séð svona mikinn hafís á firðinum áður?
Ég er ekki viss. Ég var ekki kominn hingað fyrir hafísárin miklu um 1960. Það var einhver ís hérna 1979.
Helduru að þetta muni hafa mikil áhrif á Hólmavík?
Nei, ég held ekki. Kannski bara lítið.
Þegar öldunga Hólmavíkur fór að dreyma hafís tókstu því alvarlega?
Ég hef ekki heyrt um það. Fjölmiðlarnir gera of mikið úr þessu og láta margan manninn hafa áhyggjur af þessu.
Hvað gerirðu helst í frístundum?
Á sumrin ferðast ég um landið og skoða fallega staði. Á veturna er ég oftast á netinu og tefla í gengum netið.
Ertu ennþá að tefla?
Já ég hef verið að tefla mikið á netinu, en ekki á neinum mótum undanfarið. Ég tefldi þó í Þýskalandi í febrúar á síðasta ári og í mars.
Við hvern teflirðu helst?
Ekki neinn sérstakan á netinu. Oft eru það útlendingar s.s. Frakkar, Þjóðverjar og fleiri og auðvitað við nokkra Íslendinga.
Eitthvað sérstakt sem þú saknar frá Hólmavík?
Ekki neitt sérstakt. Aðallega lognsins á Hólmavík.
Viltu senda konunni kveðju í tilefni dagsins?
Já auðvitað. Hamingju- og heillaóskir frá mér.

Að loknu viðtali töluðum við daginn og veginn. Við borðuðum köku sem Finna hafði nýbakað og drukkum kaffi í rólegheitum. Svo kvöddum við og fórum við heim.