29/04/2024

Birta og Bárður á Ströndum

Leikararnir sem leika Birtu og Bárð í Stundinni okkar eru nú stödd á Ströndum ásamt kvikmyndatökuliði að taka upp þátt í þáttaröðinni Sögurnar okkar. Í einum þættinum ætla þau að segja þjóðsöguna um tröllin sem ætluðu að grafa Vestfirði frá afganginum af Íslandi og hafa fyrir tröllaland, en urðu að steinum í Kollafirði og á Drangsnesi. Birta og Bárður sem heita í raun og veru Þóra Sigurðardóttir og Jóhann G. Jóhannsson gáfu sér góðan tíma til að tala við Dagrúnu Ósk Jónsdóttir, fréttamann strandir.saudfjarsetur.is.

Hvernig líst ykkur á Strandirnar?

Jói: Mjög vel, fallegt landslag og gaman að skoða.

Þóra: Frábærlega, ég er bæði búin að sjá sel og haförn.

Hvernig komust þið í Stundina okkar í byrjun?

Jói: Við sóttum um í sitt hvoru lagi og vorum valin til að stjórna þættinum saman.

Hverjir skrifa þættina?

Þóra: Við skrifum alla þættina sjálf og svo er fullt af öðru fólki sem hjálpar okkur, t.d. Eggert sem stjórnar, Hlíf sem sér um að allt sé 100% og ekkert gleymist og svo er myndatökumaður og hellingur af öðru fólki.

Hvað finnst ykkur skemmtilegast að leika í Stundinni?

Þóra: Mér finnst skemmtilegast að leika Birtu og Hallgerði vísindakonu sem er alltaf að bíða eftir Nóbelsverðlaununum.

Jói: Mér finnst skemmtilegast að leika Dans-Hans.

Er geimflaugin sem flýgur til Súper ekta eða tölvugerð?

Jói: Hún er tölvugerð, þegar horft er á hana að utan, þegar við erum að fljúga út í geiminn.

Þóra: Nei nei. Hún er ekta. Við fljúgum alltaf í alvörunni til Súper og tunglið er ekkert merkilegt.

Jói: Nei nei, tunglið er bara eins og pínulítið vínber.

Er það satt að þið séuð að fara að hætta í Stundinni okkar?

Þóra: Já, það er rétt. Við erum búin að vera með þættina í fjögur ár og þá er best að hætta svo börnin fái ekki leið á okkur. Birta og Bárður eiga samt eftir að skjóta upp kollinum við ýmis tækifæri.

Hvað langaði ykkur að verða þegar þið voruð lítil?

Jói: Mig langaði að vera klósettkafari, af því mamma sagði að ég ætti að verða það. Þegar ég var svo í fyrsta bekk í skólanum áttu allir að segja hvað þeir vildu verða og ég var síðastur og sagði klósettkafari. Þá hló kennarinn eins og vitlaus maður og ég komst að því að það var ekki raunverulegt starf og líka örugglega mjög óspennandi.

Þóra: Ég ætlaði að verða ljósmóðir og geimfari. Draumurinn um að verða geimfari hefur næstum ræst því ég fer oft til Súper í Stundinni okkar og nú vantar bara ólétta konu í geimfarið. Svo langaði mig til að verða söngvari líka, en það gengur ekki jafn vel, en er samt á uppleið. Finnst mér.

Langaði ykkur ekkert að verða leikarar?

Jói: Jú, frá því ég var sex ára.

Þóra: Nei, ekki mig.

Hver er uppáhaldsliturinn ykkar?

Þóra: Rauðfjólublábleikur. Þessir litir eru mjög flottir þegar þeir blandast saman.

Jói: Blár.

En hver er uppáhalds maturinn ykkar?

Þóra: Lambakjöt.

Jói: Indverskur kjúklingur. Grænlenskur kjúklingur væri líka góður ef hann væri til, en selirnir eru búnir að éta þá alla.

Eruð þið ekkert hrædd við fuglaflensuna?

Þóra: Nei, það þýðir ekki að hafa áhyggjur af hlutunum fyrirfram. Ef maður er alltaf hræddur við að fá kvef eða pissa á sig þá myndi maður ekki þora út fyrir hússins dyr og missa af ótal skemmtilegum hlutum. Svo borða ég nú ekki mikið af eggjum og kjúklingum, öfugt við Jóa.

Jói: Fuglaflensan er ekki komin til Indlands.

Ef þið mættuð taka með ykkur þrjá hluti á eyðieyju, hvað væri það?

Þóra: Sko, alla vega Jóa.

Jói: Nei, þrjá hluti, finnst þér ég vera hlutur?

Þóra: Já, ég myndi taka Jóa, köttinn minn og mikið af mat.

Jói: Humm.

Þóra: Myndirðu ekki taka mig með?

Jói: Jú, ég myndi taka Þóru, Tarzan af því hann er svo flinkur í að lifa við frumstæðar aðstæður og svo myndi ég taka með eldfæri.

Þar með var viðtalinu lokið. Að lokum sögðu leikararnir að þátturinn í Sögurnar okkar sem tekinn er upp á Ströndum verði líklega sýndur 15. júní.

Bárður og Birta (Jói og Þóra) með krökkunum á Kirkjubóli – Ljósm. Ester Sigfúsdóttir