19/04/2024

Hótel Djúpavík 25 ára

Viðtal við Evu Sigurbjörnsdóttir
Það hefur verið mikil þróun og uppbygging í ferðaþjónustu á Ströndum síðustu árin. Langt er þó síðan þjónusta við ferðafólk fór að skipta verulegu máli í atvinnulífi Strandamanna, en meðal þeirra sem hafa staðið vaktina hvað lengst eru hjónin Eva Sigurbjörnsdóttir og Ásbjörn Þorgilsson sem reka Hótel Djúpavík. Hótelið á 25 ára afmæli í ár og verður mikið um að vera af því tilefni í sumar. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is tók nýverið viðtal við Evu Sigurbjörnsdóttir, hótelstýru á Hótel Djúpavík, sem var bjartsýn á framtíð ferðaþjónustunnar.

Hvað er að frétta af Hótel Djúpavík?
"Héðan er allt gott að frétta, nema við erum að sjálfsögðu óhress með versnandi þjónustu Vegagerðarinnar, sem við erum mjög háð yfir veturinn, a.m.k. í venjulegu árferði. Veturinn hefur þó verið frekar mjúkhentur, fyrir utan eitt skot í nóvember og annað í desember. Í jólamánuðinum þurfti t.d. ekkert að moka hér fyrr en 22. des. og svo 30. des. Síðan hefur verið fín færð hérna, en við kvíðum því að svo verði allt orðið ófært þegar von er á gestum hingað seinni partinn í janúar."

Hvernig gekk starfsemin á síðasta ári?
"Gestafjöldinn sló öll fyrri met og komumst við upp fyrir 2000 gistinætur sem við teljum mjög gott. Hér var líka farið í stórátak í viðhaldi, klárað að skipta út gömlu gluggunum og samtímis var skipt um járn á þrem hliðum hótelsins og einangrað í leiðinni. 

Í haust var svo fjárfest í nýrri varmadælu fyrir hótelið, hitakútar og annað var farið að gefa sig, svo ekki varð undan því vikist að gera eitthvað stórtækt í málinu. Varmadæla þessi vinnur hita úr loftinu og hitar upp vatnsofnana sem fyrir voru, auk þess að hita allt neysluvatnið líka. 

Einnig var haldið áfram vinnu við að klæða þök síldarverksmiðjunnar og eru nú "aðeins" eftir stóru þökin yfir sölunum og mjölgangurinn og turninn. En þetta er auðvitað feikimikil vinna sem við vonumst þó til að hægt verði að ljúka á næstu tveim sumrum."

Eru bókanir fyrir næsta sumar farnar að berast?
"Við erum þegar búin að taka á móti fyrstu gestum ársins. Hér birtust tvær ungar stúlkur frá Ítalíu og gistu eina nótt. Okkur hafa þegar borist pantanir fyrir seinni part janúar, í mars, apríl og alveg fram í október. Í þessu eru 14 hópapantanir fyrir misstóra hópa sem dvelja frá einni og upp í þrjár nætur. Það koma inn nýjar pantanir á nánast hverjum degi núna eftir áramótin."

Hvað er framundan, er eitthvað sérstakt á döfinni?
"Já, svo sannarlega. Hótel Djúpavík á 25 ára afmæli á þessu ári. Og ef áætlanir okkar standast mun það ekki fara fram hjá nokkrum manni, því við ætlum að halda vel og rækilega upp á þessi tímamót. Það verður gert með ýmsum sýningum, bæði málverka og ljósmyndasýningum, bæði í verksmiðjunni og í matsal hótelsins.

Einnig munu verða hér óvenju margir tónleikar ef allt fer samkvæmt áætlun, og verða þeir haldnir bæði hér inni og eins í tónleikatanknum þar sem a.m.k. tvennir tónleikar voru á síðasta ári."

Hvernig leggst framtíðin í ykkur?
"Hún leggst nú bara vel í okkur, við höfum þá trú að þetta ár verði jafnvel enn betra en það síðasta og engin ástæða til annars en bjartsýni. Við þurfum þó að stefna að því að við göngum sem mest í takt, allir þeir aðilar sem sinna ferðaþjónustu á Ströndum og að við sem höldum opnu allt árið þurfum ekki að taka við skömmum vegna þeirra sem loka allt of snemma. Þetta má ég til með að láta koma fram vegna þess að það er alls
ekki hægt að sætta sig við að sumir séu búnir að skella í lás um miðjan ágúst. Strandamenn verða ekki frægir fyrir góða þjónustu meðan það viðgengst. Og hananú!"

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkar Evu Sigurbjörnsdóttir fyrir viðtalið og óskar Hótel Djúpavík til hamingju með afmælið og góðs gengis í ferðaþjónustu, uppbyggingu og menningarstarfi, jafnt næstkomandi sumar sem um framtíð alla.