14/09/2024

Það er svo gaman að leika í Trékyllisvík

Viðtal: Leikarar í Leikfélagi Hólmavíkur
Leikfélag Hólmavíkur er á leiðinni norður í Árneshrepp til að sýna gamanleikinn góða Með táning í tölvunni. Um lokasýningu á stykkinu er að ræða og hefst hún kl. 20:00 í Árnesi í Trékyllisvík, fimmtudagskvöldið 16. júní. Leikritið hefur fram að þessu verið sýnt átta sinnum á fjórum stöðum á Vestfjörðum. Af þessu tilefni tók fréttamaður strandir.saudfjarsetur.is tók alla sjö leikarana í smá yfirheyrslu. Allir fengu sömu spurningarnar, en svörin sem má finna hér að neðan eru skemmtilega ólík. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is hvetur svo alla til að skella sér í leikhús í Trékyllisvík.

Var erfitt að leika karakterinn þinn?

Steinar: Nei, það var erfitt að æfa hann Steingrím Garðarson, en þegar hann var kominn var hann léttur.
Jónas: Nei, það er mjög auðvelt, hann Jón Gunnar Scheving er mjög einfaldur karakter, þó hann eigi tvær konur.
Árný: Uuuu, já stundum er erfitt að leika Barböru Scheving. Jájá, það getur verið erfitt að halda svona rosa hressri týpu heilt leikrit og svo fær maður stundum harðsperrur í kinnarnar af því að brosa svona mikið.
Inga: Nei, ég myndi nú ekki segja það, það var svoldið erfitt að ná Maríu Scheving fyrst þegar að við vorum að æfa.
Sara: Nei ég myndi ekki segja það. Því að við Vala Scheving erum svo lúmskt líkar.
Arnór: Það var frekar flókið af því að hann Gulli Scheving er svo ólíkur mér.
Jón: Neinei, ég leik Garðar, gamlan og ruglaðan skapvondan karl sem heyrir bara það sem hann vill heyra. Ef ég man ekki hvað ég á að segja lem ég bara einhvern með stafnum mínum. Yfirskeggið sem ég þurfti að safna fyrir hlutverkið er samt búið að pirra mig í þrjá mánuði. Svo vildi leikstjórinn að ég þyngdi mig um 10 kíló til að ég passaði í hlutverkið, það verður gott að losna við þau aftur.

Hvernig leggst síðasta sýningin í Árneshreppi í þig?

Steinar: Bara mjög vel, ég er spenntur og hlakka til að fara í þetta.
Jónas: Mjög vel.
Árný: Bara frábærlega, ég er geðveikt spennt, gaman að klára þetta og hafa lokasýningu.
Inga: Bara alveg svakalega vel.
Sara: Ég er ógeðslega spennt, en finnst samt leiðinlegt að þetta skuli vera búið.
Arnór: Mér líst vel á sýninguna, en mér finnst líka leiðinlegt að það séu ekki fleiri sýningar og þetta skuli svo vera búið.
Jón: Mér finnst alltaf rosalega gaman að fara í leikferðir, það er svo mikið og skemmtilegt bras og vesen. Síðasta sýningin er alltaf skemmtileg. Ég er líka búinn að undirbúa dálítinn hrekk sem ég ætla að koma hinum leikurunum á óvart með, en það er leyndarmál. Það er líka svo gaman að leika í Trékyllisvík.

Hvað er það síðasta sem þú gerir fyrir sýningu?

Steinar: Ehee, labba um, bara eitthvað, svo sem engin ákveðin rútína á bak við það.
Jónas: Ehemm, labba um.
Árný: Ég stend við hurðina og læt eins og fáviti og labba svo inn á sviðið rosalega fersk.
Inga: Það er að fara að pissa og svo klessi ég hann alltaf með Söru.
Sara: Það síðasta sem ég geri er að klessa hann með Ingu.
Arnór: Ég dansa alltaf við Árnýju áður en ég fer fyrst inn á sviðið.
Jón: Mér finnst nauðsynlegt að vera dálítið stressaður þegar ég kem fyrst inn, þá leik ég betur. Ef ég er alveg slakur, þá stressa ég mig upp, einbeiti mér að því. Bít í stafinn, ímynda mér að ég kunni ekki rulluna mína, loka augunum og held niðri í mér andanum í nokkrar mínútur. Svo næ ég takti við karakterinn með því að lemja þá sem eru baksviðs með stafnum mínum.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is þakkar Steinari Inga Gunnarssyni, Jónasi Gylfasyni, Árnýju Huld Haraldsdóttur, Ingu Emilsdóttur, Söru Jóhannsdóttur, Arnóri Jónssyni og Jóni Jónssyni fyrir spjallið.

540-taningur1

Leikhópurinn í Með táning í tölvunni