27/02/2024

Villandi vegaskilti tekin úr umferð

Þegar nýir vegir opnast, eins og gerðist í haust þegar Arnkötludalur var opnaður fyrir umferð, er að mörgu að hyggja hjá starfsmönnum Vegagerðarinnar. Mjög er lagt upp úr því að finna viðeigandi nöfn á nýja vegi sem almenn sátt er um innan fyrirtækisins, eins þarf að gefa vegarköflum númer við hæfi, kynna þessar breytingar vel og vendilega, uppfæra kort og setja upp og færa og skipta um skilti með vegum um víðan völl. Miklu skiptir augljóslega að upplýsingar séu hæfilega greinargóðar og saklausir vegfarendur ekki afvegaleiddir. Þessar framkvæmdir eru vissulega langt komnar eftir að Arnkötludalur opnaðist, en fáeinar eftirlegukindur í skiltaformi hafa þó orðið á vegi fréttaritara strandir.saudfjarsetur.is sem örugglega verður skipt út hið fyrsta.

Vegur 68

Sunnan við Búðardal, þegar menn eru á leið norður, koma þeir að þessu skilti við afleggjarann yfir Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð. Skiltið bendir mönnum að fara frekar Laxárdalsheiðina, en Arnkötludalinn, en það hljóta að teljast úreltar upplýsingar. Það er varla að vegfarendur á ókunnugum slóðum megi við slíkum ábendingum, þó vissulega sé gaman að aka útsýnisferðir um sunnanverðar Strandir.

Við Húsavík við Steingrímsfjörð sem nú stendur við veg 68, eru gatnamótin við Tröllatunguheiði sem samkvæmt ábendingu skiltis sem vísar á heiðina virðist enn í fullu gildi. Hvort sem svo er eða ekki, þá kemur skýrt og greinilega fram að menn séu við veg 61 og bent bæði norður og suður. Þar er ruglingur á róli, vegurinn er númer 68 og nú kenndur við Innstrandir. Ætli íbúarnir geti þá ekki kallað sig Innstrendinga? 

vegamal/580-skilti1.jpg

Skiltið við gatnamótin á Hólmavík, við hliðina á húsi Vegagerðarinnar, tilgreinir hversu langt er til Reykjavíkur. 272 kílómetrar er leiðin er Holtavörðuheiðin er farin, en eitthvað styttri ef nýi vegurinn um Arnkötludal er valin.

– ljósm. Jón Jónsson