27/04/2024

Snjórinn lætur á sér kræla

Þegar íbúar við Steingrímsfjörð vöknuðu í morgun þá blasti við þeim fyrsti snjór haustsins. Að vísu eru áhöld um hvað skuli kalla snjó, en allavega voru götur Hólmavíkur hvítar yfir að líta en það er allt eins líklegt að það snjói aftur aðra nótt. Prýðisveður er í dag og sólin tekin til við að bræða fölið. Veðrið í september hefur verið tiltölulega hlýtt á Ströndum og nokkra daga hefur fólk haft á tilfinningunni að hafi verið bestu dagar sumarsins og undanfarið hafa haustlitirnir skartað sínu fegursta. Veðurspá á spásvæði Stranda var á þessa leið klukkan 06:00 í morgun: Norðaustan 8-15 m/s og él, en hægari í dag. Vaxandi norðvestanátt og bætir í úrkomu seint í nótt. Hiti nálægt frostmarki.

Hálka er nú á flestum leiðum til og frá Ströndum og fólk á ferð ætti því að aka varlega og huga að dekkjabúnaði.