10/09/2024

Jón berst við Björn

Um síðustu helgi réðust úrslitin í fyrstu viðureign tippleiks strandir.saudfjarsetur.is, en þá bar Jón Jónsson á Kirkjubóli sigurorð af Þresti Áskelssyni. Jón komst því áfram í leiknum en Þröstur skoraði á Björn Fannar Hjálmarsson vinnslustjóra hjá Hólmadrangi að spreyta sig í leiknum þessa helgi. Jón og Björn hafa nú skilað inn spám sínum um getraunaseðil helgarinnar. Þegar litið er á spárnar sést að þeir eru ósammála um sex leiki, þannig að það verður að teljast líklegt að annar kappanna fari með sigur af hólmi. Spurningin er hvort Björn nái að velta Jóni úr sessi; en þess má geta að tölvupósturinn sem Björn sendi stjórnanda leiksins bar heitið "Sigurröðin". Af því má ætla að sjálfstraustið og sigurviljinn hjá nýliðanum sé sannarlega til staðar. Hér gefur að líta umsagnir og spár þeirra Jóns og Björns:
 

1. West Ham – Arsenal
 
Jón: Eins lengi og ég man hefur Arsenal unnið West Ham 2-0. Það verður engin breyting á því um helgina. West Ham hefur gengið býsna vel á tímabilinu en það dugar ekki á móti Sol Campbell og félögum. Tákn: 2.
 
Björn: Drengirnir frá Higbury eiga að leika sér að þessu. Tákn: 2.
 
+++
 
2. Chelsea – Aston Villa
 
Jón: Villa náði þeim glæsilega árangri að vinna 8-3 í bikarnum í vikunni eftir að þeir lentu 3-1 undir. Þetta var eitthvað morrans smálið. Það er Chelsea ekki og Villa er svo óstöðugt að þeir geta ekki unnið tvo leiki í sömu vikunni. Tákn: 1.
 
Björn: Aston Villa kláraði markakvóta þessa mánaðar í bikarnum í vikunni þannig að þetta verður létt hjá Chelsea. Tákn: 1.
 
+++
 
3. Man. Utd. – Blackburn
 
Jón: United hlýtur að vinna þennan leik, hef enga trú á öðru. Á heimavelli. Tákn: 1.

Björn: Hef grun um að United verði sterkir núna þegar það er enginn til að rífa kjaft hjá þeim, þar sem Keane og Rooney verða hvorugur með. Tákn: 1.
 
+++
 
4. W.B.A. – Charlton
 
Jón: Charlton tapaði sínum fyrstu stigum um síðustu helgi nokkuð verðskuldað. Þeir eiga eftir að tapa fleiri í vetur, hvað sem Hermann Hreiðarsson og Rúrik Gíslason segja við því. Spái því að Björn klikki á þessum. Tákn: X.
 
Björn: Auðvelt hjá Charlton þessa vikuna, sem virðast vera þokkalega sterkir þessa dagana. Tákn: 2.
 
+++
 
5. Newcastle – Man. City
 
Jón: Liðsmenn Newcastle eru óðum að ná sér af allskyns meiðslum og Owen kemur til með að skora að minnsta kosti eitt mark í hverjum leik eins og gamli snillingurinn. Staðan í deildinni hefur ekkert að segja um úrslitin í þessum leik. Tákn: 1.
 
Björn: Uppeldið frá Liverpool í báðum liðum, hmm. Owen er sterkari og reddar Newcastle. Tákn: 1.
 
+++
 
6. Everton – Wigan
 
Jón: Everton hefur gengið ótrúlega illa í byrjun. Þeir rífa sig upp um helgina. Valtra yfir Wigan. Tákn: 1.
 
Björn: Ég held að Everton verði heppið að sleppa með jafntefli gegn Wigan. Sorry Keli. Tákn: X.
 
+++
 
7. Sheff. Utd. – Derby
 
Jón: Sheffield Utd. er í góðum gír í deildinni og unnu góðan sigur á Watford um síðustu helgi í toppslag á útivelli. Bullandi sjálfstraust á þeim bænum. Tákn: 1.
 
Björn: Held að þetta verði öruggt hjá Sheffield. Tákn: 1.
 
+++
 
8. Norwich – Reading
 
Jón: Erfitt að spá í þennan leik. Reading er í góðum gír þetta tímabilið. Tákn: 2.
 
Björn: Steindautt jafntefli! Tákn: X.
 
+++
 
9. Crewe – Watford
 
Jón: Crewe neðarlega í deildinni og Watford við toppinn. Enginn spurning hvernig þessi leikur fer að mínu mati. Watford menn eru ein taugahrúga eftir að hafa glutrað niður leiknum um síðustu helgi og Crewe tekur þá í nefið. Björn spáir útisigri og tapar á því. Tákn: 1.
 
Björn: Hef sterka trú á Watford, veit ekki af hverju. Tákn: 2.
 
+++
 
10. Stoke – Wolves
 
Jón: Mig dauðlangar til að spá jafntefli í þessum leik, en samt merki ég við heimasigur til að Björn vinni mig ekki á þessum leik. Eða ætli hann haldi kannski pínulítið með Úlfunum eins og svo margir aðrir? Tákn: 1.
 
Björn: Þessi leikur verður jafn en ekki markalaus. Tákn: X.
 
+++
 
11. Leeds – Ipswich
 
Jón: Heimasigur. Leeds verður í efri hluta deildarinnar í vor en Ipswich í neðri hlutanum. Tákn: 1.
 
Björn: Leedsararnir hljóta að fara að koma til baka upp. Samviskan segir að þeir vinni. Tákn: 1.
 
+++
 
12. C. Palace – Preston
 
Jón: Þetta eru jöfn lið. Auðvitað ætti ég að veðja á heimasigur, en rétt eftir að ég lét narra mig út í þessa getraunaleiksvitleysu dreymdi mig að við Þröstur værum að horfa á leik í fimmtu deildinni íslensku þar sem Crystal Palace gerði jafntefli við Neista á Hofsósi. Þess vegna get ég ómögulega spáð þeim sigri. Tákn: X.
 
Björn: Góður heimasigur hjá Palace þessa vikuna. Tákn: 1.
 
+++
 
13. Leicester – QPR
 
Jón: Heimasigur alveg eins og í síðasta leik, áður en mig dreymdi þessa vitleysu. Tákn: 1.
 
Björn: Einu sinni hafði ég taugar til QPR en svo brustu þær. Öruggt hjá Leicester. Tákn: 1.
 
+++
 
Jón: Jæja, það er nú bara heppni að ég er enn með í leiknum. Það er ekki af því mér hefur gengið vel, heldur af því Þresti gekk enn verr en mér. Ég er alls ekki viss um að ég nái að vinna Björn með þessari spá minni hér að ofan – 10 leikir eftir bókinni og 3 ekki. Maður hittir svo sjaldan á að spá óvæntum úrslitum rétt, þau koma í hinum leikjunum þar sem maður giskar eftir bókinni.
 
Björn: Mér finnst með ólíkindum að Jón skyldi vinna í fjórðu tilraun og þá bara með 5 réttum.  Vil minna á að enginn er spámaður í sínu föðurlandi og af því þessi vefur er hugarfóstur Jóns þá hlýtur að koma að því að hann tapi núna. “You´ll Never Walk Alone”.