22/12/2024

Skúlptúrar við Höfðagötu

Hólmvíkingar eru enn að brasa við að fegra umhverfið og niðri á Höfðagötu eru margvísleg verkefni í gangi. Í garðinum við Galdrasafnið hafa verið sett upp tvö borð þar sem rekaviðurinn nýtur sín vel og hvalbein eru líka notuð í annað borðið. Á Fiskigaldratúninu sem varð til á uppfyllingunni í fyrra hefur líka risið stórmyndarlegur fiskitrönuskúlptúr og standa listasmiðirnir góðu Sigurður Atlason og Sævar Benediktsson fyrir því. Trönurnar urðu strax vinsælt myndefni, enda í meira lagi óvenjulegar. Hreppsstarfsmenn munu einnig ætla að þökuleggja meira á uppfyllingunni fyrir hátíðahöld í sumar og loks má nefna að baka til við Höfðagötu 7 hefur Ásdís Jónsdóttir unnið að mikilli myndasyrpu. Upp eru komnar 2 myndir af 3 og snúa yfir að Hlein.

Skemmtilegir skúlptúrar við Höfðagötu – ljósm. Jón Jónsson