10/12/2024

Skjaldbakan á Act Alone

Nú er að hefjast leiklistarhátíðin Act Alone á Ísafirði og nágrenni, en hún verður sett á morgun föstudag kl. 15:00 á Silfurtorgi með sýningu á Prinsessunni á Bessastöðum. Síðan rekur hver viðburðurinn annan alla helgina og er frítt inn á alla viðburði, sjá www.actalone.net. Á föstudagskvöldinu kl. 22:00 stígur Strandamaðurinn Smári Gunnarsson á fjalirnar í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu og sýnir Skjaldbökuna. Sá einleikur var sýndur í sumar á Hólmavík og fékk góða dóma. 

 

Skjaldbakan er gamansamur einleikur leikinn af Smára Gunnarssyni og saminn í samstarfi við leikstjórann Árna Grétar Jóhannsson. Verkið er byggt á þeim stóratburði þegar risaskjaldbaka kom að landi á Hólmavík árið 1963. Skjaldbakan var 2 metrar og 360kg og þótti mikið sæskrímsli, en þetta var í fyrsta sinn sem vitað er um að slíkt dýr hafi komið að landi á Íslandi. Skjaldbakan er nú í eigu Náttúrugripasafns Íslands.

Verkið fjallar um ungann mann sem kynnist veiðimanninum og þótt þeir fari í sitt hvora áttina þá eru á milli þeirra órjúfanleg tengsl. Veiðimaðurinn tekur loforð af hinum unga manni að passa upp á bát fyrir sig þegar hann flytur frá þorpinu. Þegar báturinn dúkkar upp aftur mörgum árum seinna og minningar um veiðimanninn og skjaldbökuna sem hann dró að landi streyma fram þá koma fram leyndir draumar hins unga manns um veiðimennsku, sjómennsku og almenna karlmennsku. Allt kristallast þetta auðvitað í einu merkasta afreki veiðimannsins, skjaldböku ævintýrinu og ferðalagi hennar til Reykjavíkur.