19/04/2024

Heilbrigðisstofnunin í kastljósi atvinnumála á súpufundi

Í hádeginu á morgun fimmtudag verður annar súpufundur vetrarins í fundaröð
Þróunarsetursins á Hólmavík og Arnkötlu 2008 um atvinnu- og menningarmál á
Ströndum. Jóhann Björn Arngrímsson verður fyrirlesar fundarins og fjallar um
Heilbrigðisstofnunina á Hólmavík, en Jóhann veitir henni forstöðu. Það hafa
verið miklar umræður um Heilbrigðisstofnanirnar á landinu undanfarið sem sér
ekki enn fyrir. Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík er einn fjölmennasti vinnustaður
á Ströndum og þar eru unnin mörg fjölbreytt störf á sviði heilbrigðismála auk
annarra starfa. Fundurinn verður haldinn á Café Riis og hefst kl. 12:00. Borin
verður fram "heimalöguð sveppasúpa með rjóma" að hætti Báru Karls
matreiðslumeistara og kostar aðeins 800 kr. Á síðasta súpufund mættu rúmlega 20
manns og fræddust um sjálft fundarverkefnið og að hverju er stefnt með því. 

Allir Strandamenn sem eiga mögulega
heimangengt eru hvattir til að mæta á fundinn sem stendur yfir í matartímanum á
milli kl. 12:00 og 13:00. Atvinnumál á Ströndum er mál sem varðar alla, hvort
sem þeir starfa til sjós eða lands að öðrum ólíkum verkefnum.