22/12/2024

Skipt um stjórn hjá Strandakúnst

Nú á dögunum var haldinn aðalfundur handverkshópsins Strandakúnstar sem starfar um miðbik Strandasýslu. Fundurinn var á Cafe Riis og mætti þar fríður flokkur kvenna, en karlmennirnir hafa ekki verið eins virkir í félagsstarfinu, en samt komið með ýmsa fagra gripi gegn um tíðina. Einn félaginn, Hafþór Þórhallsson, hefur nýverið opnað sína eigin vinnustofu og sölubúð á Hólmavík og óskaði hópurinn honum hjartanlega til hamingju með það framtak. Allt fór friðsamlega fram og engin pólitík í gangi þó stjórnarskipti hafi orðið á fundinum. Í fráfarandi stjórn voru Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir og Hildur Pálsdóttir, en nýju stjórnina skipa Ásdís Jónsdóttir, Jóna Þórðardóttir og Auður Höskuldsdóttir.

Ýmislegt bar á góma á fundinum, m.a. hvatti Hrafnhildur konurnar til að halda áfram að beita prjónunum og öðrum ullarvinnslutólum óspart og minnt var á  að ull verður gull. Líka má draga fram hnífa, hamra, sagir og axir, svo margt er í boði. Síðasta vetur var haldið námskeið í silfursmíði í skólanum, sem margir félagar sóttu,  einnig skrautskriftarnámskeið, og svo má nefna leir- og glervinnslu, vatnslitamálun og fleira.

Handverksbúð Strandakúnstar er staðsett í Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík, í anddyri Félagsheimilisins. Hún er opin 8-5 alla daga til mánaðarmóta og því um að gera fyrir Strandamenn að ná sér í ullarsokka og vettlinga fyrir smalamennskurnar í haust og lopapeysurnar og húfurnar klikka aldrei.

1

Nýja stjórnin: Jóna, Ásdís og Auður

bottom

Fráfarandi stjórn: Hildur, Aðalbjörg og Hrafnhildur

ferdathjonusta/580-handverk11.jpg

ferdathjonusta/580-handverk9.jpg

ferdathjonusta/580-handverk6.jpg

ferdathjonusta/580-handverk3.jpg

Ljósm. Ásdís Jónsdóttir