15/04/2024

Skíðafélagsgrill í dag

Skíðafélag Strandamanna stendur fyrir félagsfundi og grillveislu í dag. Herlegheitin verða í garðinum hjá Bryndísi Sveins í Lækjartúninu á Hólmavík og hefjast klukkan fimm. Fyrst verður haldinn almennur félagsfundur hjá Skíðafélagi Strandamanna og að honum loknum verður sameiginleg grillveisla, hver kemur með sitt grillkjöt og hnífapör og meðlæti og drykki. Á fundinum verður rætt um áframhaldandi starf félagsins, fyrirhugaðar framkvæmdir í Brandsskjólum, innheimt félagsgjöld og skíðaleiga, kosinn skíðamaður ársins og önnur mál. Allir sem stundað hafa skíði og komið að félagsmálum skíðafélagsins eru hjartanlega velkomnir.

Starfsemi félagsins var sérlega blómleg síðastliðinn vetur, þátttaka í fjölda móta og góður árangur hvar sem keppt var. Strandagangan var með fjölmennara móti og sendi félagið sitt fjölmennasta lið á Andrésarleikana. Skíðafélagið hvetur skíðakrakka og foreldra til að skrá sig í félagið og styrkja þar með starfsemi þessi en þess má geta að engin æfingagjöld eru innheimt fyrir skíðaæfingar.